30/10/2024

Æðarræktarfélag Strandasýslu niðurgreiðir námskeið

Í dag er síðasti dagur til að skrá sig á námskeið námskeið um fugla og fuglaskoðun á Hólmavík, sem haldið verður þann 2. maí næstkomandi. Fræðslumiðstöð Vestfjarða stendur fyrir námskeiðinu, en fjallað verður um íslenska varpfugla og farfugla sem fara um svæðið. Æðarræktarfélag Strandasýslu hefur ákveðið að niðurgreiða námskeiðið fyrir sína félagsmenn um 4.000.-, en hægt er að ganga til liðs við félagið með því að hafa samband við Matthías Lýðsson í netfangi husavik@simnet.is eða síma 451-3393.

Kennari á námskeiðinu er Böðvar Þórisson hjá Náttúrustofu Vestfjarða og verður farið í greiningar á nokkrum tegundum fugla, fjallað um búsvæði þeirra og hvar og hvenær ákveðnar tegundir er best að sjá. Einnig verður farið í stofnstærðir ákveðna tegunda, lög, reglur og alþjóðlegar samþykktir. Að lokum farið í vettvangsferð á Hólmavík eða nágrenni Hólmavíkur. Námskeiðið er einkum ætlað fólki í ferðaþjónustu sem tekur á móti gestum sem áhuga hafa á fuglum og fuglaskoðun, en allir eru velkomnir.

Kennari: Böðvar Þórisson   
Verð: 9.900.- kr
Staður: Þróunarsetrið á Hólmavík
Tími: Laugardaginn 2. maí kl. 10-16. Skráning til 27. apríl, mánudag.
Skráning: Fræðslumiðstöð Vestfjarða símar 451 0080 og 867 3164, stina@holmavik.is