Aðsend grein: Jón Bjarnason, alþingismaður
Sparisjóðir eru að grunni til félagslegar stofnanir og meginhluti eiginfjár þeirra er í sjálfseign, í reynd í eign almennings þess nærsamfélags sem viðkomandi sparisjóður þjónar. Hlutverk sparisjóðs er að veita almenna fjármálaþjónustu á grundvelli hugsjóna um eflingu og uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs á heimasvæði sínu. Sem slíkir gegna þeir afar þýðingamiklu hlutverki, ekki hvað síst á landsbyggðinni.
Stofnfjárhafar sem lögum samkvæmt þurfa að standa að hverjum sparisjóði eru engan veginn eigendur sjóðanna heldur trúnaðarmenn samfélagsins á starfsvæði sjóðanna. Hlutverk stofnfjárhafanna er að tryggja að sjóðurinn starfi á þessum hugsjónagrunni en ekki að hámarka eigin persónulegar arðgreiðslur. Í ofantöldu felst ímynd og gildi heitisins „sparisjóður“. Hinsvegar ber hlutafélagsbanki engar slíkar samfélagsskyldur, heldur er meginmarkmið hans að hámarka ábata og arð eigenda hlutafjárins. Hér er því einfaldlega grundvallarmunur á.
Og hirða eigur samfélagsins
Á síðustu misserum hafa sparisjóðirinir átt í vök að verjast gegn aðilum sem reyna að brjótast inn í þá og komast yfir eigið fé þeirra og viðskiptavild, yfirtaka þá og leggja þar með hald á eigur samfélagsins. Sú spurning hlýtur að verða áleitin hverjum þeim sem virðir hugsjónir sparisjóðanna eða ber rétt samfélagsins fyrir brjósti, hvernig það megi gerast að almenningshluti eins og í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (Spron) hafi lækkað hlutfallslega á örfáum árum úr tæpum 90% í 15% án þess að neinn hafi þar haldið vörnum fyrir? Horfi ég m.a. til Fjármálaeftirlitsins sem ber opinberar skyldur í þeim efnum. Þeir sem sækja hvað harðast á um hlutafélagavæðingu sparisjóða ættu að hugleiða hvaða lagalegan eða a.m.k siðferðislegan rétt þeir hafi til að einkavæða samfélagsstofnanir eins og sparisjóðirnir eru. Ef sparisjóði er breytt í hlutafélag þá er hann ekki lengur sparisjóður heldur einkavæddur banki á markaði og lýtur kröfum hámarks gróða hlutahafans.
Ekkert er heilagt – allt skal gleypa!
Ég álít að sparisjóður sem hverfur frá markmiðum sínum og samfélagslegri umgjörð, svo sem með því að vera breytt í hlutafélag, eigi ekki lengur rétt á að kallast sparisjóður. Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir. Hvers vegna þarf að villa á sér heimildir? Í samþykktum sparisjóðanna eru skýr ákvæði um hvernig þeir skuli lagðir niður ef ekki er vilji til að starfrækja þá áfram í sínu félagslega formi. Einkavæðing og yfirtaka almenningseigna fer nú því miður eins og eldur um akur. Virðist þar fátt heilagt, hvort sem eru orkuveitur, náttúruauðlindir eða sparisjóðir landsmanna sem nú standa sem varnarlaus fórnarlömb græðginnar.
Verjum sparisjóðina!
Sparisjóðirinir eiga áfram að gegna lykilhlutverki í fjármálaþjónustu hér á landi og því er mikilvægt að standa vörð um gildi þeirra og starfsgrundvöll. Vel má vera að skerpa þurfi á þeim þáttum með lögum og tryggja jafnframt sérstöðu þeirra og samkeppnishæfni án þess að eðli þeirra breytist og hugsjónir glatist. Eitt fyrsta skrefið þar gæti verið að lögvernda heitið sparisjóður og hlutafélag mætti ekki bera það heiti í nafni sínu. Ég skora á alla þá mörgu, sem eru trúir sparisjóðahugsjóninni að rísa upp til varnar og þétta raðir sínar. Það verður að stöðva græðgina sem nú vill brjóta sér leið inn í sparisjóði landsmanna.
Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri-grænna