22/12/2024

Að breyta bara til að breyta?

Aðsend grein: Örvar Már Marteinsson
Sjálfstæðismenn eru stoltir af árangri síðustu ára. Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hefur íslenskt samfélag tekið stórkostlegum breytingum. Horfið hefur verið frá atvinnulífi sem bundið var á klafa ríkisafskipta og umhverfi skapað þar sem frjáls viðskipti og athafnasamir einstaklingar og fyrirtæki fá að njóta sín. Það gerir okkur svo fært að treysta enn frekar það öfluga öryggisnet sem er fólgið í íslenska velferðarkerfinu. Framfarirnar hafa verið ótrúlegar: Kaupmáttur hefur aukist um 75% frá árinu 1994. Það þýðir beinlínis að með meðallaunum í dag er hægt að leyfa sér næstum því tvöfalt það sem hægt var fyrir 13 árum síðan. Atvinnuleysi þekkist varla. Tekjuskattar hafa verið lækkaðir úr tæpum 43% í 35,7% og virðisaukaskattur á matvæli er búinn að lækka niður í 7%. Þannig mætti lengi telja.

Með því að auka frelsi í viðskiptum og atvinnulífi þjóðarinnar, með einkavæðingu og niðurfellingu eða lækkun opinberra gjalda, hefur efnahagur Íslendinga blómstrað. Staðreyndin er sú að skattar hafa aldrei verið lækkaðir nema með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn.

Hvers vegna að söðla um?

Því er gjarnan haldið á lofti að tími sé kominn á breytingar í íslenskum stjórnmálum og til þess verði að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Í þessu felst hins vegar ákveðin þversögn vegna þess að með áherslu sinni á athafnafrelsi einstaklinga og takmörkuð afskipti ríkisvaldsins er sjálfstæðisstefnan stefna breytinga og kviku í þjóðlífinu. Markmið hennar er ekki að skapa hið fullkomna samfélag heldur veita aukið frelsi og tryggja jöfn tækifæri í þeirri trú að þannig náist framfarir í samfélagi manna.

Hverju viljum við annars breyta? Viljum við snúa framförunum til baka? Þjóðnýta Símann og bankana? Ganga úr EES? Hækka aftur skattana eða auka opinber afskipti? Ísland hefur verið að klifra upp lista Sameinuðu þjóðanna yfir þau lönd sem best er að búa í. Viljum við breyta því?

Með efnahagslegum framförum hafa möguleikar okkar til að styrkja velferðarkerfið stóraukist sem sést best í því að kaupmáttur aldraðra og öryrkja hefur aukist enn meir en kaupmáttur launa sem hefur þó aukist hratt. Viljum við breyta því?

Hvers vegna að breyta?

Það er kjördæminu okkar mjög mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn fái öfluga kosningu. Hér eru verkefni sem Sjálfstæðisflokknum er best treystandi fyrir að leysa vel af hendi. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að ganga í stórkostlega uppbyggingu vega og samgöngumannvirkja, standa fyrir áframhaldandi uppbyggingu í menntamálum, halda áfram að lækka skatta og halda áfram að búa svo í haginn að allir geti nýtt sér þau tækifæri sem felast í kröftum hvers og eins.

Ég vil halda áfram á sömu braut. Halda áfram á réttri braut. XD.

Örvar Már Marteinsson
Skipar 10. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi