23/12/2024

Á sjötta tug sótti um stöðu Kaupfélagsstjóra

Á sjötta tug umsókna barst um starf kaupfélagsstjóra hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík, en umsóknarfrestur rann út um síðustu mánaðamót. Á vef Svæðisútvarps Vestfjarða kemur fram að viðskiptafræðingar af höfuðborgarsvæðinu séu áberandi margir í hópi umsækjenda. Þar segir einnig að miðað sé við að gengið verði frá ráðningu fyrir áramót og að nýr kaupfélagsstjóri hefji störf snemma á nýju ári. Vitnað er í Matthías Lýðsson stjórnarmann hjá KSH sem telur skýringuna á þessum mikla áhuga m.a. þá að Kaupfélag Steingrímsfjarðar sé traust og skuldlaust fyrirtæki.

Á vef Svæðisútvarpsins segir ennfremur að velta Kaupfélagsins sé um 300 milljónir króna á ári og starfsöryggi hljóti að teljast býsna gott ef tekið sé mið af því að fráfarandi kaupfélagsstjóri, Jón Alfreðsson, hafi sinnt þessu starfi í heil 40 ár.