Aðsend grein: Matthías Lýðsson, Húsavík. Nokkuð hefur verið fjallað um nýja veginn um Arnkötludal og Gautsdal hér á strandir.saudfjarsetur.is. Komið hefur fram að í Gautsdal vék Vegagerðin frá þeirri veglínu sem kynnt var í Matsskýrslu um umhverfisáhrif. Hreppsnefndin í Reykhólahreppi taldi að henni hefðu ekki verið kynntar breytingarnar. Vegagerðin sagði; “Jú víst”. Skipulagsstofnun var ekki upplýst um þessar breytingar og komst að þeirri niðurstöðu að Vegagerðin hefði brotið lög. Vegagerðin segir; “Hugsanlega mistök”.
Það er matsatriði hvort allar breytingar á veglínunni eru til bóta. Ég lagði leið mína í Gautsdalinn einn af fáum þurrviðrisdögum í september síðastliðnum. Meðfylgjandi myndir sem gefur að líta hér að neðan voru teknar í þeirri ferð. Ferðin varð mér líka tilefni til að senda Vegagerðinni eftirfarandi bréf þann 25. okt. síðastliðinn.
„Það eru deildar meiningar um legu nýja vegarins í Gautsdal, þar sem hann er lagður rétt við fossbrúnina við fossinn í Gautsdal. Ég fór í sept. og skoðaði þetta. Það var sunnan strekkingur 12-15m/sek. Þurrt og bjart. Á veginum ofan við fossbrúnina var samfelldur úði, vatnið fossaði eftir veginum og rúðuþurrkurnar höfðu engan veginn undan. Þar má geta sér þess til að í frosti og í hvössum vindi myndist ísing á veginum, jafnvel þó vegurinn verði hálkulaus og auður allstaðar annars staðar. Lega vegarins þarna er ekki bara óheppileg, heldur meiri háttar hönnunarslys. Svo ég skrifi hreint út; þarna er Vegagerðin að leggja slysagildru, í versta falli dauðagildru. Nema eigi að grípa til mótvægisaðgerða s.s. að setja fossinn í rör eða strengja öfuga regnhlíf yfir fossbrúnina. Það er að mínu mati bara einn kostur í stöðunni. Það VERÐUR að færa veginn frá fossinum. Ég óska svara við eftirfarandi spurningum: Á að færa veginn frá fossbrúninni? Ef ekki: Verða sett þarna vegrið, verður gripið til sérstakra hálkuvarna, hvernig verða vegfarendur varaðir við ísingarhættu eða telur Vegagerðin ekki ástæðu til neinna aðgerða? Ekki veldur sá sem varar. Með bestu kveðjum. Matthías Sævar Lýðsson”
Þessu bréfi hefur ekki enn verið svarað, en í símtali við gæðastjóra Vegagerðarinnar um miðjan jan. kom fram að Vegagerðin ynni eftir gæðastaðli og öllum bréfum og erindum væri svarað. Það er dapurlegt en því miður ekki dæmalaust að starfsfólk Vegagerðarinnar svari ekki fyrirspurnum notenda vegakerfisins. Hvort Vegagerðin telur sig yfir það hafna skal ósagt látið, en það er að minnsta kosti ljóst að gæðastaðlarnir eru ekki að virka sem skyldi. Þegar eða ef ég fæ svar, vona ég að það rói mig og aðra væntanlega vegfarendur, ótti sé ástæðulaus og forsendur tilfærslu vegarins fram á fossbrún á 35m háum fossi séu “vegtæknilegar”. Matthías Lýðsson, Húsavík
Úðinn nær á myndinni er af litlum fossi ofar í ánni, en til hægri sést úðaský af stóra fossinum. Vegurinn liggur þar meðfram gljúfurbakkanum næst ánni, en vegurinn sem sést liggja upp á holtið er bráðabirgðavegur. Vegstæðið sem Línuhönnun teiknaði og vikið var frá í útfærslu Vegagerðarinnar var töluvert fjær fossinum, yfir mýrina og vatnið.
Vegurinn er rennblautur, þó þurrt sé í veðri
Til hægri sést úðinn af umræddum fossi
Ofan við fossinn – hamarinn liggur á bakkanum
Gljúfrið er nálægt vegi
Það er fallegt í Gautsdalnum – ljósm Matthías Lýðsson