22/11/2024

Heilmikið fjör á kraftakeppni

Heilmikil kraftakeppni fór fram á Sumarhátíð Sauðfjársetursins í Sævangi síðstliðinn sunnudag. Þar drógu menn dráttarvélar, héldu á múrsteinum, báru vatnsbrúsa og köstuðu belgjum sem mest þeir máttu. Allmargir spreyttu sig á kraftaþrautunum og léku sér á vellinum í hinum fjölbreyttustu leikjum. Það voru þau Jón Bjarni Bragason frá Heydalsá og Laufey kona hans sem fóru með sigur af hólmi í kraftakeppninni að þessu sinni. Í karlaflokki voru Lýður Jónsson og Vignir Pálsson í öðru og þriðja sæti, en í kvennaflokki voru það mæðgurnar Agnes Jónsdóttir og Svanhildur Jónsdóttir.

Veður var skaplegt á sunnudaginn, hann hékk þurr og norðanáttin var hlýrri en venjulega. Keppendur voru alls 22, en fimm fyrstu sætin í hverri þraut gáfu stig í karla- og kvennaflokki. Gátu menn tekið þátt í þeim þrautum sem þeir treystu sér í, en þurftu ekki nauðsynlega að keppa í öllum. Sólin lét ekki sjá sig og áhorfendur hafa oft verið fleiri, margir hafa líklega látið vonda veðurspá gabba sig. Þeim sem mættu er kærlega þakkað fyrir skemmtunina. 

Belgjakastið reyndi mjög á menn, sérstaklega var erfitt að stjórna því hvert belgirnir fóru í meðvindinum. Jón Bjarni sigraði í karlaflokki og Agnes Jónsdóttir kastaði lengst í þessari þraut í kvennaflokki.

Það er afar erfitt að halda múrsteinunum uppi. Vignir Pálsson og Jón Bjarni héldu steinunum þremur jafn lengi uppi eða í 1:35 mínútur. Í kvennaflokki hélt Svanhildur 2 steinunum uppi í 2:01 og þótti mönnum nóg um.

Splúnkuný gerð af skeiðklukku sem þróuð var af geimvísindastofunni NASA var prufukeyrð í keppninni og reyndist mjög vel.

Það er hreint ekki auðvelt að draga dráttarvélina Rannveigu af stað, en svo kemur þetta allt saman með tímanum. Lýður Jónsson og Matthías Lýðsson náðu besta tíma þarna eða 21 sekúndu, en í kvennaflokki dró Laufey vélina tilskylda vegalengd á 26 sekúndum.

Bikararnir og heiðurinn sem fylgir því að vera Strandamaðurinn sterkasti næsta árið fóru báðir í sömu fjölskylduna. Jón Bjarni og Laufey með bikara og börnin. Jón Bjarni náði í 16 stig af 20 mögulegum, en Laufey í 17 stig af 20 mögulegum.

Ljósm. Grétar Matthíasson, Jón Jónsson og Ester Sigfúsdóttir