22/11/2024

Vinabærinn Årslev

Frá Årslev - ljósmynd sigatlasÍ dag lagði tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is leið sína til Årslev sem er vinabær Hólmavíkur í Danmörku. Sveitarfélagið samanstendur alls af sex kauptúnum og heitir eftir stærsta bænum. Aðrir bæir sem tilheyra sveitarfélaginu Årslev eru Nørre Søby, Nørre Lyndelse, Sønder Nærå, Rolfsted og Ferritslev.

Årslev er á Fjóni, sem er eyjan á milli Sjálands og Jótlands. Stærsta borg á Fjóni er hin fornfræga Óðinsvé (Odense) sem er aðeins í 12 km fjarlægð norður af Årslev. Það er svipuð vegalengd og frá Hólmavík að Sævangi í Steingrímsfirði svo tekið sé lítið dæmi.

Óðinsvé er þriðja stærsta borg Danmerkur með um 145.000 íbúa, næst á eftir Árósum með yfir 220.000 íbúa og höfuðborgarinnar Kaupmannahöfn með yfir milljón íbúa.

Þessi nálægð Årslev við Óðinsvé útskýrir raunar eitt og annað þegar litast er um í sveitarfélaginu og leiðir hugann að því við hvað íbúarnir starfa þar, því atvinnufyrirtæki eru ekki mjög áberandi nema helst minni þjónustufyrirtæki, hárgreiðslustofur, sólbaðsstofur, handverkshús auk hverskonar annars fyrirtækjareksturs í svipaðri stærðargráðu. Þar er einnig að finna litlar verslanir á víð og dreif, en engan sérstakan miðbæjarkjarna.

1Í samtali sem fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is átti við bæjarstjóra Årslev, Hans Jørgensen, kom einmitt fram að flestir íbúar sveitarfélagsins sækja vinnu til borgarinnar, enda um stutta leið að fara og allar almenningssamgöngur með ágætum. Búskapur er talsvert stundaður en strúkturinn á býlunum hefur þó verið að breytast s.l. ár og sjálfstæðum bændum fækkar stöðugt vegna ásóknar stórra fyrirtækja í framleiðslugreinina sem kaupa upp bóndabýlin til að auka við framleiðni sína. Bændunum sem það kjósa gefst þó oftast kostur á að starfa við landbúnaðarfyrirtækin og gerast einskonar leiguliðar á sínum fyrri jörðum.

Í sveitarfélaginu Årslev þar sem búa yfir 9000 manns eru fimm einsetnir grunnskólar á vegum sveitarfélagsins auk þriggja annarra minni einkarekinna skóla. Þar eru einnig íþróttahús, tónlistarskólar og bókasöfn eins og vera ber í öllum samfélögum.

Á næstu dögum munu birtast frekari tíðindi frá vinabæ Hólmavíkur í Danmörku hér á strandir.saudfjarsetur.is. Þar á meðal um sameiningarmál sveitarfélaga sem eru ofarlega á baugi þar ytra sem á Ströndum. Þangað til má skoða þessar myndir sem voru teknar þar seinnipartinn í dag.

vinabaeir/350-arslev002.jpg
Lestarstöðin í Årslev.

bottom
Frá Årslev.

Frá Årslev - ljósmynd sigatlas
Årslevkirkja

1
Leikskóli í Årslev.

vinabaeir/350-arslev010-kirkja2.jpg
Kirkjan í Sønder Nærø, einum bæjanna í sveitarfélaginu Årslev.