Á grillveislunni sem haldin var eftir hreinsunarátak Hólmvíkinga í gær tilkynnti Bjarni Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri fyrirhugaðra Hamingjudaga á Hólmavík hver hefði unnið lagasamkeppni sem haldin var í tengslum við hátíðina. Leitað var að lagi sem gæti verið kynningarlag hátíðarinnar og bárust alls níu lög í keppnina eftir jafnmarga höfunda. Fimm heimamenn sendu inn lag og það er gaman að segja frá því að einn þeirra, Kristján Sigurðsson aðstoðarskólastjóri á Hólmavík fór með sigur af hólmi með lagi sínu Hamingjudagar á Hólmavík við texta Ásgerðar Ingimarsdóttur, en það vill einmitt svo skemmtilega til að Ásgerður er móðir Victors Arnar Victorssonar skólastjóra á Hólmavík. Kristján flutti lagið í grillveislunni við mikinn fögnuð og góðar undirtektir gesta.
strandir.saudfjarsetur.is óska Kristjáni og Ásgerði (og Victori með móður sína) til hamingju með lagið, textann og sigurinn í keppninni.
Ljósm. – Arnar S. Jónsson