24/11/2024

Andri að meika’ða?

Andri í aksjónUngir Strandamenn eru að gera það gott á fjölmörgum vígstöðvum, bæði í tónlistarlífinu og í leiklist, eins og sést hefur á fréttaflutningi hér á strandir.saudfjarsetur.is undanfarin misseri. Einn af þeim sem eru í eldlínunni er Andri Freyr Arnarsson frá Hólmavík, en hann er söngvari og bassaleikari rokksveitarinnar Kingstone sem hefur bækistöðvar sínar á Akureyri. Kingstone, sem komst í úrslit Músíktilrauna vorið 2004, hefur verið iðin við kolann undanfarna mánuði og spilað á fjölda tónleika. Nú eru einhverjir stærstu tónleikar sveitarinnar um það bil að skella á, en í kvöld spilar Kingstone á stórtónleikum á Akureyri ásamt Quarashi og fleiri þekktum sveitum.

Tónleikarnir í kvöld eru hluti af Birtingu, sem er stór og mikil hátíð ungs fólks á Akureyri. Auk Quarashi og Kingstone koma fram hljómsveitirnar Skytturnar, Múskat og Douglas Wilson. Það er óhætt að segja að Andri og félagar í Kingstone taki rokklífernið með trompi því í gær, þann 14. apríl, spilaði hljómsveitin á tónleikum í hinum alræmda Norðurkjallara MH ásamt hinum ágætu sveitum Jan Mayen og Lokbrá. Þeir mega því aldeilis drífa sig aftur norður ef þeir ætla ekki að missa af konsertnum í kvöld.

Þeir sem vilja fræðast nánar um Kingstone geta kíkt á heimasíðu þeirra sem er uppfærð reglulega: www.kingstone.tk.