22/11/2024

Síldveiði í Steingrímsfirði sumarið 1962

Söguþáttur eftir Guðbrand Benediktsson
Útgerð Hilmis ST-1 sem undirritaður var hjá veturinn 1961-1962 ákvað um veturinn að stunda smásíldar­veiðar við Steingrímsfjörð sumarið 1962. Sömu menn voru í áhöfn og um veturinn, þeir voru: bræðurnir Guðmundur (Mummi) Guðmundsson, Gústaf (Dúddi) Guðmundsson og Hrólfur Guðmundsson, Jónas Ragnarsson systursonur þeirra, Magnús (Maggi) Ingimundarson og Þorsteinn (Steini) Guðbjörnsson. Hrólfur frá Heiðarbæ hætti hins vegar um sumarið til að sinna sveitastörfum.

Undirbúningur fyrir veiðarnar

Undirbúningur að þessum veiðum hófst eftir áramót og fólst hann í því að í flestum landlegum var haldið til á loftinu í svokölluðu Ráðaleysi við nótagerð. Ráðaleysið var gamalt bárujárnsklædd hús, þar sem fiskur var að jafnaði saltaður á jarðhæð ásamt því að vera birgðastöð fyrir salt en á efri hæðinni var neta/nótavinnsla.  Ráðaleysið stendur við vestur enda „Plássins“ sem var aðaltorg Hólmavíkur. Plássið var vinsæll útivistarstaður, sérstaklega á vorin, þegar þorpsbúar af öllum aldri iðkuðu „slábolta“, sem var í miklu uppáhaldi í mörg ár.

Aðstaðan á loftinu í Ráðaleysinu var mjög góð til nótagerðar og nótaviðgerða, þarna var líka gestkvæmt í landlegum. Þeir Magnús Ingimundarson og Gústaf Guðmundsson stjórnuðu allri vinnu við landnótagerðina en það er sérstök grein innan netagerðarfagsins. Það fyrsta sem maður lærði var að „fylla á nálina“ sem notuð var við að „rippa“ (= sauma) saman stykkin sem skorin höfðu verið til af kúnstarinnar reglum af Magga, Dúdda og Mumma. Verkefnið var að búa til kastnætur af ýmsum lengdum og dýptum sem pössuð við þær aðstæður sem hentaði hverju sinni við síldveiðar í landnót.

580-ludan-hilmir
Áhöfnin á Hilmi með væna lúðu – mynd tekin 1965.

Landnótaveiðar

Fyrir þá sem ekki vita hvernig landnótaveiðar ganga fyrir sig skal nú reynt að lýsa því nánar. Við landnótaveiðar er nótinni kastað á síldartorfuna og búinn til „lás“ utan um síldina á það grunnu vatni að blýteinninn botnar allstaðar til að fyrirbyggja að síldin fari undir teininn, korkteinninn sá um yfirborðið. Þegar búið var að ná síldartorfu í lás var hún geymd þar í einhverja daga, sem fór eftir getu frystihúss KSH til að taka á móti smásíldinni til hraðfrystingar í pönnum en mest af aflanum var fryst sem beitusíld. Vegna lásanna þurfti að eiga nokkrar nætur til að veiðar stoppuðu ekki. Einnig var búin til svo kölluð „úrkastsnót“ sem notuð var til að taka síld úr lásunum. Fleiri nætur voru gerðar en ekki verður farið nánar út í það. Eftir þorsknetaveiðar á Steingrímsfirði um vorið, sjómannadag og smá hlé var byrjað að gera klárt fyrir smásíldarveiðarnar.

Tveir bátar voru notaðir við þessar veiðar; Gunna sem var skektan hans Mumma og Héðinn sem var trilla sem Hrólfur Guðmundsson og Þorsteinn Guðbjörnsson áttu. Hét áður Farsæll í eigu Jóhanns Jónssonar skíðakóngs. Hilmir var svo móðurskipið sem notaður var þegar mikið lá við er taka þurfti meira en 50 tunnur í ferð.

Kúnstin að sjá mórilluna

Allt snýst um að finna síldina sem kemur upp að landinu og voru yfirleitt 2 eða fleiri á svokölluðum útkikk þegar dólað var með landi. Ekki var síldin vaðandi nema í örfá skipti og fólst kúnstin í því að sjá „mórilluna“ sem svo var kölluð, en þar sem síld er undir yfirborði sjávar má sjá brúna slikju, en glampinn á sjónum og gárur trufluðu stundum þessa sýn. Þetta er því þó nokkur kúnst og menn misflinkir að sjá mórilluna. Magnús Ingimundarson virtist hafa „arnarsjón“ og var því sjálfkjörinn „nótabassi“ en hann stjórnar ávallt þegar kastað var. Oftast var nótabassinn á þakinu á trillunni en síðar tókum við tæknina í lið með okkur og notuðum „labb-rabb“ tæki við þetta. Þá gat Maggi verið uppi um holt og hæðir í landi og stjórnaði okkur við köstin. Mórillan af síldinni sást oft mun betur þegar hærra var komið.

Þegar kallið kom frá Magga, var farið með annan enda nótarinnar, sem var í Héðni, upp undir land og var Gunna notuð til þess. Nótinni var síðan kastað úr Héðni út fyrir síldina og reynt var að ná bug út fyrir torfuna og var stefnan síðan tekin að landi með djúpendann. Þegar nótinni var að fullu kastað þurfti oft að draga hana nær landi til að tryggja að hún botnaði. Til að halda torfunni inni í bugnum þurfti að nota „skilmi“ en skilmir er sérstakur fiskur úr tré með blýi á öðrum endanum en band í hinum. Var honum kastað fyrir síldina til að halda henni inni í nótinni og síðan dregin til baka og kastað aftur og aftur til að halda síldinni inni í nótinni. Síðan voru endarnir á nótinni færðir saman og búinn til hringur um síldartorfuna og hún læst inni.

„Mjög sjaldan búmmað“

Menn urðu að vera mjög samtaka og samhentir í þessari aðgerð til þess að allt heppnaðist sem best svo að síldartorfan tapaðist ekki út úr nótinni eða undir hana. Köstin voru misstór, allt frá slatta 10-15 tunnur, upp í 200-300 tunnur. Mjög sjaldan var „búmmað“ en það þýddi að engin síld náðist, og nótin var þá dregin sem hraðast aftur upp í Héðinn. Þegar tekin var síld úr nótalás var notuð úrkastsnót sem var lítil og henni kastað úr Gunnu inn í lásinn. Ég man að Mummi sagði að hún (úrkastsnótin) ætti ekki að koma upp með meira en 40-60 tunnur sem passaði í Héðinn. Þrengt var að síldinni og henni ausið (háfað) upp í Héðinn af 2 mönnum með stálnetskörfu á milli sín þannig að sjórinn rann strax úr körfunni áður en yfir borðstokkinn kom. Þegar leið á sumarið gerðist það æ oftar að sprettharður gæðafiskur slæddist í nótina og varð þá oft harður atgangur því hann vildi stökkva yfir korkateininn. Eitt sinn mann ég að Jónas stakk sér á eftir slíkum flóttafiskum, en bar lítið úr bítum nema að verða sjóblautur þótt sprettharður sundmaður væri sjálfur.

Veiðisvæðin í firðinum náðu frá Drangsnesi og inn í botn og út fyrir Hólmavík að sunnanverðu. Veiðistaðir sem kastað var á voru aðallega víkur svo sem Skeljavík, Hólmavík milli Sandskers og bryggju, Vallnesvík, innan við Innri-Ós undir Fellabökunum, út af og innanvið Grænanes, hjá Bassastöðum, milli Sandnes og beygjunnar upp á Bjarnafjarðarháls áður en vegurinn kom þar á milli, innan við Reykjanesið sem heitir Paradís, Hveravík og kringum Hamarsbælið.

Samkeppni við Einar Hansen

Samkeppnisaðilinn (konguransen) þetta sumar var Einar Hansen, norskur sómamaður, sem flust hafði til Hólmavíkur ungur en náði aldrei fullu taki á íslenskunni, og „Dengsi minn“, sonur hans. Skemmtilegu atvikin tengdust yfirleitt samkeppninni við þá feðga og verður nú greint frá nokkrum.

Eitt sinn erum við að koma innan úr firði, með Héðinn fullan af síld til löndunar á Hólmavík.Á slíku stími voru yfirleitt allir á útkíkki eftir síld og er við komum að Vallnesvíkinni sjáum við Einar Hansen handan fjarðar við Sandnes á leið inn fjörðinn. Trúlega hefur eitthvað truflað okkur eða glampinn á sjónum ekki verið réttur þannig að við sáum ekki neitt á víkinni en þegar við höfðum siglt framhjá henni verður Magga litið til baka „Vallnesvíkin er full af síld,“ kallar hann. Nú voru góð ráð dýr, engin nót og Héðinn fullur af síld, og Einar Hansen á næsta leiti. Ákveðið var að láta sem ekkert væri og haldið var til Hólmavíkur til að landa sem hraðast. Það var gert með körfum sem mokað var í með litlum netháfum, þær voru síðan hífðar með böndum upp á bryggju af 2 mönnum og þaðan sturtað upp á bíl, allt á höndum. Það gekk mikið á svo að menn á bryggjunni botnuðu ekkert í látunum. Þegar við erum rétt að ljúka við að landa kemur Einar Hansen fyrir Hólmann og var okkur þá létt, hann hafði greinilega ekki séð síldina í Vallnesvíkinni. Þá eigum við eftir að taka nótina um borð svo menn rak í rogastans yfir hamaganginum, sleppt var og hoppað um borð og stefnan tekin inn með landi. ,,Hva geng á,“ sagði Einar Hansen, sem horfði á hamaganginn. Þegar inn á Vallnesvíkina kom var síldin enn til staðar og náðum við þarna einu besta kasti sumarsins 200-300 tunnur. Þegar upp komst um ástæður látanna sagði Einar Hansen: „Dengsi minn var po útkíkk“.

Eitt sinn vorum við að eltast við síld innan við Bassastaði, Maggi var uppi í hlíð með labb-rabbið og fylgdist vel með hreyfingu torfunar, við biðum átekta fyrir utan. Menn vissu að það væri aðdjúpt þarna og nótin varla nógu djúp en þegar torfan færði sig nær landi gaf Maggi okkur merki og við köstuðum. Við komumst út fyrir síldina og vorum að byrja að draga að til að missa hana ekki undir teininn. Það var keppst við að nota skilminn til að fæla síldina nær landi en illa gekk. Kemur ekki sjálfur Einar Hansen siglandi inn með landinu í leit að síld, hann dólaði rétt utan við nótina, sá dýpið og kallaði þá: „Tað er alt of djúpt, tið fá ekkert.“ En viti menn, hann styggði síldina að landi með skrúfuhljóðinu, þannig að við náðum að draga að og setja í lás. Þökk sé Einari Hansen, sem síðar hlaut staðfestingu á sannleiksgildi allra sinn ótrúlegu veiðisagna þegar hann ári seinna, 1963, kom með risaskjaldböku að landi.

Síldin ánetjaðist allan hringinn

Þegar við einu sinni sem oftar komum út fyrir Reykjanestánna og dóluðum inn á Hveravík sjáum við vaðandi síld um alla vík. Þarna köstuðum við með langri nót og hugðum gott til glóðarinnar. Þegar við höfðum lokað hringnum sjáum við að korkateinninn er byrjaður að sökkva allan hringinn. Þannig að þetta var ekki neitt smá kast og Magga varð á orði að þetta væri „stærsta kast sem þeir hafi nokkurn tímann náð.“ Þegar nánar er skoðað er síldin svo smá að hún hafði „ánetjast“ allan hringinn. Samt voru um 100 tunnur í lásnum sem við urðum að taka sem fyrst vegna ánetjunarinnar. En mikil vinna var síðan að hreinsa nótina og þurfti að hrista hverja einustu síld úr möskvunum sem var mikið puð. Mikill ágreiningur var meðal áhafnar hversu miklu magni 40-60 tunnur væri hægt að ná með úrkastnótinni í einu úrkasti. Það sannaðist þarna að Mummi reyndist hafa rétt fyrir sér, 55 tunnur og ekki bröndu meira.

Það reyndist oft tálsýn þegar leitað var að síld og mönnum fannst þeir sjá „móa“ fyrir torfu og gat tekið tíma að átta sig á því hvort kasta ætti. Við vorum eitt sinn staddir utan við Hamarsbæli og dólum inn á vík sem heitir Kokkálsvík að menn þykjast sjá mórillu á víkinni þannig að það er ákveðið að kasta. Hrólfur og G. Ben voru í því hlutverki að fara í Gunnu með endann í byrjun kastsins. Fljótlega eftir að byrjað er að kasta skynjar Maggi að þetta er ekki síld heldur þarasker undir yfirborði sjávar sem sást móa fyrir. Við drógum því hið snarast inn, frekar svekktir. Sem við erum að ljúka því birtist Einar Hansen fyrir tangann. Það kviknar um leið hugmynd hjá okkur og Gunnumenn hendast útí og við gerum okkur klára og líklega til að kasta. Þetta sér Einar Hansen og kemur líka auga á móilluna þannig að það liggur beint við hjá honum að kasta með það sama. Svo fer hann að sjá grilla í þarann á skerinu og hættir og dregur inn. „Thið vera plata mig,“ kallaði Einar þá til okkar. Staðan í viðskiptum okkar við sker var því 1-1 og vorum við þokkalega sáttir við það og leiddist ekki grikkurinn. Skerið mun heita „Kokkálssker“ upp frá þessu.

Einstök náttúrufegurð í Steingrímsfirði

Eftir að hafa eytt þessu sumri á Steingrímsfirði og marga fjöruna sopið síðan er ég ekki í nokkrum vafa um að fáir eða enginn fjörður á landinu hefur upp á aðra eins náttúru að bjóða og Steingrímsfjörður. Að liggja upp á Reykjanesinu með Paradísarvík fyrir framan sig, morgunsólina í bakið og horfa inn fjörðinn yfir til Hólmavíkur verður ekki toppað.

Um haustið 1962 fór Hilmir í vélaskipti til Siglufjarðar og mátti það ekki seinna vera, vélin komin á síðasta snúning. Á nýju vélina reyndi síðan vorið 1963 í apríl. Þá gerði eitt snarpasta norðaustan áhlaup, í mannaminnum, sem hendi væri veifað. Hilmir var þá við línuveiðar í Húnaflóa og komst ekki inn í Steingrímsfjörð og fór þvert yfir flóann til Skagastrandar við illan leik. Jónas Ragnarsson var í þessari sjóferð ásamt Magnúsi Ingimundarsyni og Gústaf Guðmundsyni. Jónas hefur lofað að greina frá þessari ferð, til minningar um Hilmi.

Guðbrandur Benediktsson,
háseti á Hilmi ST-1

Framhald af greininni: Til minningar um Hilmi ST-1 og Mumma.