Aðsend grein: Gunnar Þór Jóhannesson, lektor í ferðamálafræði HÍ, Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði HÍ og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, lektor í ferðamálafræði Hólaskóla
Undanfarið ár höfum við undirrituð unnið að rannsókn á Ströndum um mótun svæðisins sem áfangastaðar ferðamanna. Verkefnið er hluti af alþjóðlegri rannsókn um þróun og áhrif ferðaþjónustu á norðlægum jaðarsvæðum og hýst er hjá Háskólanum í Finnmörku, Alta. Ásamt Íslandi er unnið að verkefninu í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Kanada. Rannsóknin á Ströndum hefur m.a. beinst að frumkvöðulshætti og nýsköpun í ferðaþjónustu og ímynd Stranda og Strandasýslu. Í þessari grein viljum við gera stuttlega grein fyrir könnun meðal úrtaks þjóðarinnar um ímynd svæðisins.
Á næstunni mun birtast önnur grein um aðra hlið ímyndarhlutans sem snýr að ljósmyndum og ummælum ferðamanna og heimafólks um hvað það er sem „gerir Strandir að Ströndum“.
Hverjir koma til Stranda?
Könnunin sem um ræðir var hluti af Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands í desember 2011 og janúar 2012. Könnunin var send á netpanel Félagsvísindastofnunar, sem samanstendur af fólki 18 ára og eldra á landinu öllu sem samþykkti að taka þátt í könnunum á vegum Félagsvísindastofnunar á vefnum. Netpanellinn byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá og endurspeglar þýði fólks á landinu. Alls bárust 1198 svör við könnuninni og var svarhlutfall tæp 53%.
Niðurstöður könnunarinnar sýna að rúmur helmingur landsmanna hefur farið um Strandir eða Strandasýslu sem ferðamenn. Flestir hafa komið við á Hólmavík (91%), jafn margir, eða 70% hafa ferðast til Djúpuvíkur, Borðeyrar og Drangsnes á meðan að rétt um helmingur hefur komið til Norðurfjarðar, Trékyllisvíkur og Bjarnarfjarðar. Það er ánægjulegt fyrir ferðaþjónustuaðila á Ströndum að vita að rúmur helmingur þessa hóps telja það mjög eða frekar líklegt að þeir muni ferðast aftur um Strandir og 30% eru óákveðnir. Þó eru 20% sem telja frekar eða mjög ólíklegt að þeir muni taka sér aftur ferð á hendur um Strandir.
Svörin voru greind eftir níu bakgrunnsþáttum, þar á meðal kyni, aldri og stjórnmálaskoðun. Lítill munur var á svörum eftir bakgrunnsbreytum en þó var greinilegt að eldra fólk hefur frekar komið til Stranda og fólk á bilinu 30-69 ára var mun líklegra að huga að ferðalögum um svæðið en yngsti hópurinn (18-29 ára) og sá elsti (70 ára og eldri).
Náttúrufegurð, galdrar og páfagaukar?
Fólk var spurt um hvað því dytti fyrst í hug þegar það hugsaði um Strandir eða Strandasýslu. Alls svöruðu 1183 þessari spurningu og eins og gefur að skilja voru svörin mjög fjölbreytt. Á milli 16 og 17% datt ekkert í hug eða þekktu ekki svæðið á neinn hátt. Áberandi þættir sem komu fram var „Afskekkt byggð“; „náttúrufegurð og fjöll“, „eyðibýli“, „fegurð og friður“, „galdrar og galdrasafnið“ og „vondir vegir“. Einnig voru staðir eins og Djúpuvík og Hólmavík oft nefndir. Af því sem fáir nefndu en kom þó fram var „Hreinn Halldórsson“ og „páfagaukar“ sem verða að teljast fremur persónuleg hugrenningartengsl.
Áfangastaður í mótun
Atriði sem þessi undirstrika að upplifun fólks af stað er mjög persónubundin. Þegar fólk ferðast til einhvers áfangastaðar gleypir það ekki endilega við þeirri ímynd sem sköpuð hefur verið heldur velur og hafnar og tengir reynslu sína á staðnum við sinn eigin bakgrunn og fyrirtætlanir. Áfangastaður er því aldrei fullkomlega mótaður heldur má segja að hann verði til í hversdagslegum athöfnum okkar og í þeim tengslum sem við eigum í sem ferðamenn og heimafólk á staðnum.
Í markaðsstarfi er oft lögð mikil áhersla á að skapa vel skilgreinda ímynd og vörumerki vöru, þjónustu eða svæðis. Í ferðaþjónustu er til að mynda algengt að lögð sé höfuðáhersla á fáeina eiginleika svæðis sem ætlað er að gera það aðlaðandi í augum ferðamanna. Í ljósi þess að fólk tengist áfangastað á fjölbreyttan hátt og leggur ólíka merkingu í það sem mætir þeim má þó velta fyrir sér hvort það sé endilega vænlegt til árangurs að einblína á hið einfalda og vel afmarkaða. Sjarmi svæðis getur einnig legið í því að það sé ekki að fullu skilgreint og pakkað í neytendaumbúðir. Þegar kemur að ímyndaruppbyggingu verður að hafa í huga að það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum og slíkt starf þarf að byggja á vel ígrunduðum forsendum og umræðu meðal hagsmunaaðila og íbúa.
Á næstu misserum munum við halda áfram rannsóknum á mótun Stranda sem áfangastaðar ferðamanna. Við viljum þakka öllum þeim sem hafa aðstoðað okkur hingað til.
Gunnar Þór Jóhannesson, lektor í ferðamálafræði HÍ, Katrín Anna Lund, dósent í ferðamálafræði HÍ og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, lektor í ferðamálafræði Hólaskóla