Aðsend grein: Engilbert Ingvarsson
Það mun hafa verið fyrri hluta árs 2007 að ég var staddur í Fjarskiptasafni Símans í gömlu loftskeytastöðinni á Melunum í Reykjavík. Þegar forstöðumaður safnsins Jón Ármann Jakobsson vissi að ég var frá Hólmavík fór hann að spyrja um gamlan símastaur, sem hann vissi að hefði verið látinn standa eftir þegar símalínan var rifin niður. Bað hann mig að kanna þetta og símaði ég svo til hans að staurinn væri í góðu standi.
Jón Ármann kvaðst hafa áhuga á að koma upp skilti við staurinn, ætlaði hann að huga að því að fjármagna kostnað og bað mig um samráð um að skrifa texta og annað sem að verkefninu lyti. Heyrðist svo ekkert meir um málið og ég hugsaði ekki mikið um þetta næstu misserin. En þegar ég fór ítrekað að kanna þetta mál kom í ljós að Fjarskiptasafnið var lokað en komið undir Þjóðminjasafnið og forstöðumaðurinn látinn.
Jón Ármann Jakobsson var fæddur 5. janúar 1935, d. 26. júní 2008. Hann var lærður loftskeytamaður og lauk tæknifræðiprófi í London, starfaði í Danmörku um tíma, en síðan hjá Pósti og síma og var hann m.a. skólastjóri Póst- og símamálaskólans.
Sæsímastrengur var lagður til Íslands, að Seyðisfirði, 1906 og síðan stauralína vestur eftir Norðurlandi og til Reykjavíkur. Árið 1908 til 1909 var lögð símalína frá Brú um Hólmavík og Steingrímsfjarðarheiði til Ísafjarðar. Símstöð var sett upp á Hólmavík fyrst að Kópnesbraut 3b, en árið 1935 í nýtt hús sem Hjálmar Halldórsson símstöðvarstjóri hafði byggt að Hafnarbraut 35. Póstur og sími flutti svo í nýbyggt hús sitt að Hafnarbraut 19 árið 1978. Símastaurinn sem enn stendur innst við Borgabraut er með 13 símakúlum, því margar línur lágu frá símstöðinni og dreifðust að Drangsnesi, Bjarnarfirði, um Árneshrepp, Staðardal, að Arngerðareyri og til Ísafjarðar.
Sögumiðlun ehf. hefur útbúið skilti um sögulegar minjar og viðburði, ásamt öðrum verkefnum og bað ég framkvæmdastjórann, Ólaf J. Engilbertsson, að huga að því að koma upp skilti við staurinn og sækja um styrk til verksins. Ekki hefur tekist að fjármagna verkefnið ennþá.
Sveitarfélagið hefur lagt veg með tilheyrandi jarðraski fast við símastaurinn, en hollvinir í nágrenni hafa staðið vörð um að ekki væri hróflað við þessu meira en hundrað ára gamla mannvirki.
Hólmavík í maí 2011,
Engilbert S. Ingvarsson