22/11/2024

Hvernig Hólmavík viljum við?

300-thorgeir-palssonGrein eftir Þorgeir Pálsson
Þessi spurning á að koma upp reglulega í hugum Hólmvíkinga og þeirra sem unna Hólmavík. Þessi spurning á þess vegna ekki að vera hluti af greinaskrifum í aðdraganda kosninga. En í þessari grein er hún það, því miður. Af hverju er það miður? Jú, því hér snýst spurningin um mál sem svo oft hefur verið rætt um og svo oft hefur verið sett á aðgerðarlista sveitarfélagsins, en ekki komist til framkvæmda að fullu.

Umhverfismál!

Það þarf ekki skarpa né glögga einstakinga til að sjá, að umhverfismál eru í ólestri á Hólmavík. Nokkur dæmi:

Aðkoman að Hólmavík, þegar komið er að sunnan, er gámasvæðið á Grundunum við golfvöllinn það sem tekur á móti manni. Svæðið er skelfingin ein og ljóst að þar hafa upphafleg markmið, hver svo sem þau voru, aldrei náðst. Ég gef mér a.m.k. að svæðið hafi ekki átt að þróast í þann ruslahaug sem það er núna.

Skeiðið.  Þrátt fyrir þá staðreynd, að einhvers staðar verði iðnaðar- og vinnuvélahverfi að vera, þá er ekki þar með sagt að slík svæði þufi að einkennast af bílhræum, ónýtum vinnuvélum, brettum, ryðguðum gámum o.s.frv. Umhverfi Vegagerðarinnar og Orkubúsins sanna að það er hægt að ganga snyrtilega frá slíkum svæðum.

Svæðið við flugvöllinn.  Ég spurði að því á borgarafundi á síðasta ári, hvernig stæði á þeirri uppsöfnun vinnuvéla og tækja sem þar er nú.  Mér var svarað á þá lund að þetta væri framtaksleysi af hálfu sveitarfélagsins og jafnframt að þetta svæði ætti ekki að þróast svona og þarna ætti ekki að rísa nýr haugur eða safnkista járnabraks.

Beitningaskúrarnir á Tanganum.  Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta svæði, það sjá allir að þetta svæði gæti verið miklu snyrtilegra ef það væri hannað í einhverju samhengi við þá byggð og starfsemi sem er þarna í nágrenninu. Það er þó engan vegin sjálfgefið að þessi starfsemi fari saman og því þarf að móta skýra stefnu og sýn á það, hvers konar umhverfi við viljum sjá
þarna  Ég er viss um að allir sem hlut eiga að máli eru tilbúnir í þá vinnu að skoða nýjar og nútímalegri lausnir.

Dæmin eru fleiri, t.d. hinir eiginlegu ruslahaugar, og sú sjónmengun sem þeir skapa, en ég læt þessi dæmi þó duga í minni upptalningu.

Ég mun kjósa það fólk í kosningunum þann 29. maí n.k. sem ég tel að geti á næstu 3-4 árum breytt ásýnd og ímynd Hólmavíkur þannig, að við séum meðal þeirra fremstu í umhverfismálum á landsvísu. Nýleg breyting á sorpflokkun og sorphirðu hér á Hólmavík er gott og vel framkvæmt skref í þá átt.

Höfum í huga, að árlega koma þúsundir ferðamanna til Hólmavíkur til að sækja sér afþreyingu, hvíld og gleði.  Þetta er umhverfið sem við bjóðum þeim. Ferðamenn sem koma hingað eru líklegir til að segja þessa sögu og ímynd Hólmavíkur tekur m.a. mið af henni.

Slæm ímynd meðal ferðamanna er auðvitað ekki gott mál, en mér er hins vegar ofar í huga hvað við sjálf höfum um þetta að segja, eða ættum að hafa um þetta að segja.  Hvað viljum við? Hvers konar umhverfi viljum við hér á Hólmavík? Viljum við þorp með tugum bílhræa? Viljum við spila golf í návígi við ruslahauga á borð við gámasvæðið? Hvað viljum við?

Ég hvet alla Hólmvíkinga til að hugleiða þetta með sjálfum sér. Ég hvet líka alla Hólmvíkinga til að fara ekki á nornaveiðar í þessu sambandi, því sökin liggur víða. Banka- og stjórnkerfishrunið hér á landi kenndi okkur, að mannskepnan er gjarnan þannig að hún nýtir sér þær glufur og það svigrúm sem lög, reglur og aðhald (eða skortur á því) veita henni. Það sama gildir hér. Skortur á stefnu og beittu aðhaldi, hefur gefið mörgum hér á Hólmavík færi á að haga sínu umhverfi að eigin vild. Ég er viss um að þeir hinir sömu eru tilbúnir í átak, svo lengi sem átakið er samspil þeirra og sveitarfélagsins, þar sem allir aðilar vinna að sameiginlegu og umsömdu marki; hreinni og fallegri Hólmavík!

Framundan er að mínu mati spennandi og krefjandi vinna við að móta framtíðarsýn Hólmavíkur og Strandabyggðar. Hvers konar umhverfi viljum við? Hvers konar samfélag viljum við? Hvaða hlutverki á Strandabyggð að gegna á Vestfjörðum í framtíðinni? Þessi vinna verður að vera samvinna og samspil sveitarfélagsins og íbúa. Engin stefnumótun verður þvinguð fram eða mótuð með öðrum hætti en samvinnu allra sem hlut eiga að máli. Það er mikið verk framundan og það verk bíður þeirra sem þora og geta.

Þorgeir Pálsson
Borgabraut 27