22/11/2024

Ágætu íbúar Strandabyggðar

Grein eftir Rúnu Stínu Ásgrímsdóttur

Nú styttist í að við göngum til kosninga og veljum fólk í sveitastjórn. Aðstandendur J-listans hafa ákveðið að bjóða listann fram á ný, og er það fagnaðarefni. Því ég tel að margt gott hafi áunnist undanfarin 4 ár og töluverð reynsla hafi safnast þar saman sem mikilvægt er að nýtist næstu árin. Þó margt hafi áunnist er líka ýmislegt sem eftir situr og fullur vilji er til að vinna áfram að. Eins og flestir vita er listinn ekki eyrnarmerktur neinum flokkspólitískum öflum sem án efa er einn mesti styrkur hans.

Hér er samankominn hópur fólks úr öllum kimum samfélagsins, verkamenn, kennarar, starfsmenn á plani og stöku fræðingar svo eitthvað sé nefnt. Innfæddir og aðfluttir, sveitamenn í
hjarta og fyrrverandi borgarbörn, hægri- eða vinstrisinnaðir eða algerlega óskilgreindir. Allir eiga það þó sameiginlegt að vilja leggja samfélagi okkar lið með verkum sínum.

J-listinn hefur sannað með störfum sínum undanfarin ár að þar er unnið á lýðræðisgrundvelli þar sem markvisst er leitað eftir að fá fram skoðanir sem flestra og lausnir fundnar út frá því. Það er ómetanlegt fyrir þá sem standa í framlínunni. J-listinn er staðráðinn í því að halda þeim vinnubrögðum áfram til heilla fyrir okkar góða samfélag.

Að lokum vil ég hvetja alla kjósendur í Strandabyggð að nýta kosningaréttinn og kjósa J.

Með sumarkveðju,
Rúna Stína Ásgrímsdóttir