22/11/2024

Breytingar!

Þorgeir PálssonGrein eftir Þorgeir Pálsson
Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða kemur nú fram undir nýju merki. Merkið er tákn fyrir þær breytingar sem hafa fylgt í kjölfar stefnumótunar félagsins, sem hófst snemma í vor. Starfsmenn og stjórn Atvest hafa unnið að gagnrýnni naflaskoðun, endurhugsað hlutverk og markmið félagsins og sameinast um nýja framtíðarsýn. Sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar hafa tekið þessum breytingum vel og stutt þá hugsun sem þær tákna.

Sú hugsin er í raun einföld; eitt stórt atvinnuþróunar- og þekkingarfyrirtæki á Vestfjörðum, sem vinnur að atvinnuþróun, nýsköpun, þekkingaröflun og miðlun og beitir sér á öllum stigum virðiskeðjunnar, í samstarfi við sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og aðra hagsmunaaðila. Einföld sýn og réttlætanleg, þar sem Vestfirðir hafa vart efni á öðru en að samstilla þá krafta og þá þekkingu sem til er.

Núna eru óvissutímar, svo vægt sé til orða tekið. Það er talað um efnahagshrun og fyrirtæki og einstaklingar eru þegar orðin vör við það hrun. En það er líka talað um annað hrun; „kerfishrun“. Það kerfi er þá líklegast stjórnkerfi landsins, sem með einhverjum hætti (sem á eftir að rannsaka) sá ekki fyrir atburðarrásina, ofmat gildandi lagaramma og ætlaða yfirsýn og vanmat stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu.

Þessar staðreyndir blasa við. Það er hins vegar mikilvægt að láta þær ekki blinda aðrar, ekki síður mikilvægar staðreyndir sem snúa að mannauði, fagþekkingu og góðum innviðum atvinnulífs á Vestfjörðum og víðar á landinu. Þessa staðreynd þarf að virkja! Stjórnvöld, sveitarfélög, hagsmunaaðilar, fyrirtæki og einstaklingar verða að standa saman um að kynna og virkja þessa staðreynd. Það versta sem nú gæti gerst er; að gera ekkert. Það má ekki gerast, að sú kreppa sem nú er skollin á, verði afsökun fyrir því að „gera ekkert“. Það má ekki gerast að mikilvægum framkvæmdum sé frestað, lánsfjármagn og styrkir afturkallaðir, eða grundvelli stoðgreina atvinnulífsins gert með einhverjum hætti erfiðara um vik í því mikilvæga hlutverki sínu núna að hvetja fólk áfram, greina ný tækifæri, þróa vörur og skapa verðmæti. Ef eitthvað er, þá á einmitt núna að stórefla atvinnuþróunarfélög á landinu, beina auknu fjármagni í nýsköpun, almenna verkmenntun, frumkvöðlasetur og svæðisbundna fjárfestingarsjóði undir stjórn atvinnuþrónarfélagana. Núna er tíminn til að beina þessu fjármagni í þá átt þar sem „auðveldast“  verður að skapa verðmæti og atvinnu!

Langtímahugsunin byggist á aðgerðum núna!

Um leið og Atvest þakkar Vestfirðingum góðar og sérlega jákvæðar viðtökur við nýjum áherslum og breytingum, skorum við á Vestfirðinga, sveitarstjórnir, fyrirtæki og einstaklinga að standa saman í því verkefni að koma í veg fyrir að kreppan verði stærsta afsökun síðari tíma fyrir enn frekara svelti og aðgerðarleysi gagnvart atvinnu- og menningarlífi á Vestfjörðum!

Þorgeir Pálsson
framkvæmdastjóri Atvest