Ásthildur Cesil Þórðardóttir, Hanna Birna Jóhannsdóttir, Pétur Bjarnason, Pétur Guðmundsson.
Svo virðist vera sem valdabrölt herji nú á Frjálslynda flokkinn enn einu sinni. Við getum ekki betur séð en verið sé að reyna yfirtöku á flokknum. Okkur líkar það illa, því við höfum í lengstu lög viljað stilla saman strengi og halda málefnum flokksins til streitu. En nú er ljóst að það er ekki hægt. Ákveðnir aðilar hafa sýnt að þeir komu inn í flokkinn með því hugarfari að yfirtaka hann og laga að sinni stefnu. Eins og reyndar var margvarað við á sínum tíma. Á viðskiptamáli væri þetta kölluð tilraun til fjandsamlegrar yfirtöku.
Okkur þykir vænt um Frjálslynda flokkinn, og það sem hann stendur fyrir, Við erum líka ánægð með forystu flokksins og nefnum þar fyrst og fremst formanninn Guðjón Arnar Kristjánsson. Forysta flokksins hefur sömu stefnumál á dagskrá og við undirrituð, og leggur sömu áherslur. Þó við teljum ekki upp fleiri, þá er á þessum lista kjarninn úr Frjálslynda flokknum eins og hann var, fólk sem hefur unnið mikið fyrir flokkinn, oftast sjálfboðavinnu og yfirleitt án hávaða eða fyrirgangs.
Við gengum í upphafi til liðs við flokkinn, einmitt vegna áherslna hans á málefni hinna dreifðu byggða, sjávarútvegsmálin, landbúnaðarmálin og hlut byggðanna í misskiptu samfélagi og höfum starfað með honum síðan. Okkur hefur liðið vel með þessar áherslur, og líka áherslur okkar í málefnum útlendinga. þ.e. stefnu flokksins, samkvæmt málefnasamningi okkar. Við tökum undir áherslur Guðjóns og þingmanna okkar í velferðarmálum, og tillögur og frumvörp sem þeir hafa lagt fram um þau mál.
Sem fyrr segir þá er greinilegt að aðilar innan flokksins vega nú leynt og ljóst að formanninum og þar með flokknum. Nú svo komið að við getum ekki orða bundist. Á miðstjórnarfundum hafa átt sér stað endurteknar árásir á þingflokksformanninn Kristinn H. Gunnarsson, en jafnframt er í gangi undirróðursherferð á hendur formanninum þó sé erfitt að sjá hvaðan fréttir berast, en þannig er eðli rógsins.
Guðjón Arnar hefur sýnt ótrúlega hugprýði og stillingu við þessi niðurrifsöfl. Það að hann vilji halda frið, eins lengi og stætt er, er viturlegt. Hinn vitri ræðst ekki fram, heldur leyfir hlutunum að hafa sinn gang, til að sjá hvaða stefnu þau taka. Hins vegar er óhætt segja, að þeir sem vega að Guðjóni nú, þekkja hann ekki eins vel og við og það fólk sem honum stendur nær. Gamli skipstjórinn, er ef til vill seinþreyttur til vandræða, en að grípa til aðgerða, hefur aldrei vafist fyrir honum, þegar til kastanna kemur. Við höfum líka fulla trú á að svo verði nú.
Við höfum ekki viljað ræða opinberlega um þessi innri mál flokksins, vegna þess að við vonuðum að þessum rógi linnti og menn myndu snúa bökum saman. En svo kemur að því að það er ekki hægt að þegja lengur. Þannig líður okkur núna. Þeir sem ekki eru ánægðir með stefnu flokksins, og forystu, ættu frekar að velja sér annað skipsrúm en að stunda þessa niðurrifsstarfsemi. Þeim átti að vera ljós stefnumál flokksins þegar þeir gengu til liðs við hann.
Málefni Reykjavíkur eru vissulega góðra gjalda verð, en það vill svo til að flokkurinn mælist ekki með mikið fylgi þar, sem sýnir að styrkur hans liggur á landsbyggðinni, enda ekki vanþörf á að vinna að þeim málefnum sem brenna á hinum dreifðu byggðum landsins. Út af þeirri stefnu höfum við aldrei vikið, og förum vonandi ekki að gera það nú.
Það er skiljanlegt að fólk vilji komast til forystu í flokknum og láta að sér kveða, en við erum orðin þreytt á sífelldum ófriði og niðurrifsstefnu í þágu slíkra eiginhagsmuna. Hér vilja margir verða kóngar og ekki seinna en strax.
Á tveggja ára fresti er landsþing Frjálslynda flokksins. Það á að skera úr um hverjir veljast til forystu, valdir af félagsmönnum flokksins, þar er vettvangurinn til að gefa kost á sér til trúnaðarstarfa. Þeir sem vilja komast til meiri metorða en þeir hafa nú þegar, ættu að bíða þess tíma en ekki sitja og kynda undir ófriði meðal flokksmanna, það er hætt við því að það komi í bakið á þeim sjálfum.
Okkar afstaða er ljós, meðan Guðjón Arnar gefur kost á sér til formanns í Frjálslynda flokknum, munum við standa þétt að baki hans. Best væri að fólk færi að vinna saman, og láta reyna á málefnin. Málefni og stefna Frjálslynda flokksins eru góð og algjörlega nauðsynleg að okkar mati.
Valdabrölt eins og nú á sér stað í flokknum tætir hann bara niður. Gefur óvinunum gott færi á að skjóta föstum skotum. Enginn er verri óvinur, en sá sem þykist vera vinur, en er svo þegar á reynir Lúsifer í dulargerfi.
Við undirrituð eigum sæti í miðstjórn Frjálslynda flokksins,
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
Hanna Birna Jóhannsdóttir
Pétur Bjarnason
Pétur Guðmundsson