22/11/2024

Við og þið hin

Grein eftir Grím Atlason.
Nemakortin í strætó eiga að stuðla að grænum skrefum eða hvað þetta heitir nú í höfuðborginni þessa dagana. Nemar geta þannig komist í skólann sinn með strætó án gjaldtöku. Það er auðvitað hið besta mál. Þetta á þó aðeins við suma – já, sumir eru jafnari en aðrir. Á heimasíðu strætó má finna eftirfarandi um nemakortið:

Þú getur sótt um Nemakort ef þú uppfyllir neðangreind skilyrði:
• Þú ert með lögheimili innan sveitarfélags sem tekur þátt i Nemakortunum (Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Álftanes).
• Þú ert skráður nemandi í framhalds- eða háskóla sem staðsettur er á höfuðborgarsvæðinu.

Hvernig stendur á því að höfuðborgin og hjálegur hennar geta mismunað nemum sem eru svo óheppnir að eiga lögheimili t.d. á Raufarhöfn með þessum hætti? Stefni maður á framhaldsnám er mesta úrvalið á höfuðborgarsvæðinu og uppbyggingin að langmestu leyti farið þar fram. Þetta nám er niðurgreitt af ríkinu og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðið njóta góðs af staðsetningu skólanna með margvíslegum hætti.  Til dæmis í formi fjölbreyttari tækifæra, auknum skatttekjum til sveitarfélaganna (útsvar, fasteignaskattar o.fl.), betri þjónustu og fjölskrúðugs mannlífs.

Það er aumt að sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu sjái ekki hve lánsamir þeir eru að uppbygging framahaldsskólanna skuli hafa farið fram á þeirra svæði. Ef þeir gerðu það myndu þeir ekki hika við að bjóða nemendum frá öðrum sveitarfélögum upp á sambærileg kjör og nemendur svæðisins njóta í strætó. Við og þið hin er vond aðferðarfræði.

Grímur Atlason, sveitarstjóri Dalabyggðar