Aðsend grein: Jón Bjarnason
Vinstri græn hafa lagt fram og kynnt tillögur um að hefja skuli stórátak til uppbyggingar á grunnstoðum sjálfbærrar ferðaþjónustu í Norðvesturkjördæmi og verja til þess umtalsverðu fjármagni ár hvert næstu fimm árin. Við höfum bent á að Vestfirðir státa af fjölbreyttri náttúru og lífríki sem laðar nú þegar til sín sívaxandi fjölda ferðafólks og jafnframt sé að finna í landshlutanum fjölmarga merka sögustaði sem ekki eiga sína líka annarsstaðar. Með slíku átaki væri rækilega tekið á og greidd leið Vestfirðinga sem sameinast hafa um það markmið að stórefla ferðaþjónustu sem atvinnuveg á Vestfjörðum.
Hin svarta þokumóða sjávarútvegsráðherra
Það var hins vegar athyglisvert að heyra þingmenn sjálfstæðisflokksins af Vestfjörðum tala niður til ferðaþjónustunnar og þeirra sem í henni starfa. Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi formaður ferðamálaráðs ritaði pistil um svarta þokumóðu ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum á heimasíðu sína fyrir skömmu. Þar sagði hann um tillögur mínar um stórátak í stuðningi við uppbyggingu ferðaþjónustu á Vestfjörðum, m.a í sjóstangaveiði, náttúruskoðun o.fl.: „Þau áttu það sameiginlegt að vera tillögur, semsé að vera tillögur um atvinnutækifæri sem skapa myndu störf fáeina mánuði á ári. Hvað íbúar Vestfjarða eiga svo að gera hinn hluta ársins var hinsvegar í svörtustu þokumóðu … vinna í þrjá mánuði á ári, en frí í 9!!!“
Vestfirðingar hafa trú á ferðaþjónustunni sem atvinnugrein
Það kveður við annan tón hjá Elíasi Guðmundssyni framkvæmdastjóra Hvíldarkletts þegar talað er um möguleika ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum. Í fréttum sjónvarps 22. apríl síðastliðinn kom fram að um 1500 sjóstangaveiðimenn eru væntanlegir til Vestfjarða í sumar á vegum fyrirtækisins Hvíldarkletts á Suðureyri sem tekur nú í fyrsta sinn á móti slíkum hópum. Þá eru ótaldir þeir sem koma á vegum annarra aðila. Elías segir þetta flotta innspýtingu í samfélagið fyrir vestan. Helstu kröfurnar hjá sjóstangaveiðimönnum eru þær að vera í litlu sjávarþorpi, búa í einbýli og vera í göngufæri við þjónustu og að sjálfsögðu höfnina. Á kynningu á ferðaþjónustu á Vestfjörðum fyrir skemmstu lýstu fulltrúar þeirra möguleikum svæðisins en bentu á að efnhagsstefna stjórnvalda væri þeim mjög andsnúin, himinháir vextir, verðbólga og þensla annarstaðar í samfélaginu, skert samkeppnisstaða í samgöngum, flutningskostnaði, hátt raforkuverð o.fl. gerði þeim erfitt um vik. Það þyrfti öflugan grunnstuðning við greinina.
Vonbrigði með skýrslu s.k. Vestfjarðarnefndar
Það hafa margir orðið fyrir vonbrigðum með skýrslu Vestfjarðarnefndar s.k. sem skilaði af sér á dögunum. Enda skýrslan samin á síðustu dögum ríkisstjórnar sem setið hefur samfleytt í 16 ár og er í sjálfu sér ekki merkilegt plagg. Dugleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks talar sínu máli en stefna hennar hefur beinlínis verið aðför að byggð og atvinnulífi á Vestfjörðum. Fólksfækkun og skerðing tekna á undanförnum árum talar sínu máli. Það þarf fullkomna hugarfarsbreytinu hjá stjórnvöldum ef snúa á þessari þróun við, segir Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar í bréfi til okkar þingmanna.
Nóg komið af skýrslum, við þurfum aðgerðir
„Vestfirðir verða ekki byggðir upp á grundvelli skýrslu opinberrar nefndar,“ segir í forystugrein Morgunblaðsins 19. apríl sl. Bragð er að þá barnið finnur. Í stað aðgerða valdi ríkisstjórnin að setja saman enn eina skýrsluna, slá umræðunni á dreif, smjörklípuaðferðin kallaði Davíð Oddson það þegar menn reyna að draga athyglina frá erfiðum málum með slíkum hætti. Vissulega eru margir góðir hlutir nefndir í skýrslunni en Vestfirðingar þurfa aðgerðir. Morgunblaðið gagnrýnir stjórnarþingmennina og ráðherrana harðlega en tekur undir þær áherslur sem við í Vg höfum haldið fram og barist fyrir. „Grundvöllurinn að byggð á Vestfjörðum er fiskurinn og nálægð byggðanna við auðug fiskimið.“ Það er þessi auðlind sem Vestfirðingar eiga að njóta forgangsréttar til. Og eins og tekið upp úr stefnuskrá Vinstri grænna heldur Morgunblaðið áfram: „Vestfirðir sem ferðamannasvæði eru vannnýtt auðlind. Það á við um alla Vestfirði en alveg sérstaklega Djúpið sjálft, Jökulfirðina, Hornstrandir og norður Strandir.“ Ég vil bæta við: Reykhólar, Barðströnd, Látrabjarg, – já Suðurfirðirnir allir.
Ef Vestfirðingar fá að njóta auðlinda sinna til lands og sjávar og jafnréttis í ytri aðstæðum ásamt öflugum bakstuðning stjórnvalda er hægt að snúa vörn í sókn á Vestfjörðum. Það þarf að skipta fullkomlega um hugarfar hjá stjórnvöldum og það verður aðeins gert með því að skipta um ríkisstjórn. Við Vinstri græn höfum kynnt aðgerðaáætlun okkar í atvinnu-, byggða- og samgöngumálum. Við ætlum að ganga í verkin og það gerum við með þínum stuðningi.
Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi