22/11/2024

Eiga samkeppnisrök Sjálfstæðisflokksins ekki við í Hrútafirði?

Aðsend grein: Anna Kristín Gunnarsdóttir 
Nýr vegur um innanverðan Hrútafjörð hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið en veglína hans var endanlega frágengin á síðasta ári. Vegurinn er áætlaður nokkuð norðar en núverandi Staðarskáli og ljóst að eigendur hans myndu reisa þjónustumiðstöð á nýjum stað við hinn nýja veg. Brúin yfir Selá, norðan Brúar í Hrútafirði, var breikkuð síðastliðið sumar sem fyrsti áfangi í væntanlegri veglagningu. Tæki voru því næst flutt niður á áreyrar Hrútafjarðarár og þess vænst að framkvæmdir við sjálfa veglagninguna hæfust. En þar með virðist framkvæmdum lokið að sinni því ekkert frekar hefur verið aðhafst og vinnubúðirnar fluttar burt. Hvað veldur?

Ný þjónustumiðstöð í áætlun

Síðasta vetur var lögð fram tillaga að aðalskipulagi Bæjarhrepps, við vestanverðan Hrútafjörð. Var þar gert ráð fyrir lóð undir verslunar- og þjónustusvæði sem Olíufélagið Skeljungur hafði lýst áhuga á að sækja um og reisa á þjónustumiðstöð. Við það hefði skapast samkeppni sem án efa hefði komið vegfarendum frá Vestfjörðum og Norðurlandi til góða í lægra vöruverði, auknu framboði og fjölbreyttari þjónustu, auk þess sem íbúum í grenndinni hefðu staðið til boða störf við þjónustuna. Landeigendur hefðu jafnframt haft hag af sölu eða leigu lands undir þjónustumiðstöðina. 

En þegar tækin voru komin niður á áreyrarnar og tillaga að aðalskipulagi Bæjarhrepps hafði verið lögð fram virtist allt í einu kominn kengur í málið. Ekki var haldið áfram með verkið, þrátt fyrir velvilja heimamanna, m.a. þeirra sem hagsmuna eiga að gæta vegna veiði í Hrútafjarðará. Veiðiréttarhafar eru þó almennt þeir aðilar sem flóknast er að ná samkomulagi við í slíkum tilfellum enda um mikla hagsmuni að ræða þegar gönguleiðir lax eiga í hlut. Tillagan að aðalskipulagi Bæjarhrepps var síðar dregin til baka og önnur lögð fram þar sem ekki er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustulóð. Olíufélagið Skeljungur mun þó enn hafa áhuga á að koma upp þjónustu á staðnum og landeigendur áhuga á viðskiptum við þá. Hvað veldur breyttu viðhorfi í Bæjarhreppi? Hafa ráðamenn Bæjarhrepps ekki áhuga á því að atvinnufyrirtæki hasli sér völl í sveitarfélaginu?

Aukið öryggi og styttri leið

Nýr vegur um Hrútafjörð er mikið hagsmunamál vegfarenda á norðurleið þar sem í dag er ekið um krókóttan veg, einbreiða brú og bætir að sjálfsögðu leiðina norður. Vegfarendur eiga einnig hagsmuna að gæta í því hvort samkeppni er um viðskipti við þá. Íbúar svæðisins hafa hag af því að nýr þjónustuaðili færi störf á svæðið. Það er því brýnt að fá svar við því hvers vegna tillögu að skipulagi Bæjarhrepps var breytt og hvers vegna vegagerð hefur tafist svo sem raun ber vitni.

Hvað veldur töfum?

Undirrituð lagði fram fyrirspurn til samgönguráðherra á Alþingi vegna þessa máls, skömmu fyrir þinglok, en svör við henni voru vægast sagt þunn í roðinu og skýrðu í engu hvers vegna veglagningu var ekki haldið áfram, eins og fyrirhugað var. Hver voru afskipti samgönguráðherra? Varla er þó ráðherra Sjálfstæðisflokksins að stuðla að einokun í þjónustu við vegfarendur með afskiptum sínum – eða hvað? Eða eiga samkeppnisrök Sjálfstæðisflokksins ekki við í Hrútafirði?

Anna Kristín Gunnarsdóttir
alþingismaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi