Aðsend grein: Jón Jónsson
Í nýjasta Bændablaðinu er birt kort yfir útbreiðslusvæði fyrir háhraða aðgangsnet á 3,5 GHz, merkt Póst- og fjarskiptastofnun. Þar virðist mér vera merkt inn á að að allur Bæjarhreppur og öll byggðin við Steingrímsfjörð norðanverðan, við botn fjarðarins og út eftir Tungusveitinni njóti slíkra háhraðanets. Ég leyfi mér að efast stórlega um að þetta kort sé rétt, en það er náttúrulega forsenda fyrir úrbótum að ráðamenn viti hvar skóinn kreppir. Það eru t.d. bæir við Steingrímsfjörð sem eiga ekki kost á slíkri tengingu.
Því vil ég beina þeim eindregnu tilmælum til sveitarstjórna á Ströndum að þær komi leiðréttingum á framfæri, þar sem þörf er á. Til þess þarf auðvitað að vera kortlagt nákvæmlega hvar sé möguleiki á háhraðaneti og hvar ekki, á hvaða bæjum og í hvaða húsum. Ég býst svona frekar við því að sveitarfélögin hafi þær upplýsingar fyrirliggjandi, enda hafa þau annars brugðist því hlutverki sínu að berjast fyrir bættum hag íbúanna. Án slíkra upplýsinga eru þau beinlínis illa í stakk búin til að berjast fyrir jafnri aðstöðu íbúa sinna við önnur landssvæði eða jafnri aðstöðu og þjónustu ríkisvaldsins við íbúa innan sinna vébanda.
Þetta gildir auðvitað ekki bara um háhraðatengingu, heldur líka þætti eins og GSM-samband, sjónvarpsskilyrði, útvarpsstöðvar og slíkt. Sveitarstjórnir þurfa auðvitað að vita nákvæmlega hvar GSM-samband er, hvaða útvarps- og sjónvarpsstöðvar nást á einstökum svæðum og bæjum og önnur atriði sem varða fjarskiptamál, rétt eins og samgöngurnar og þjónusta við vegi sem þarf að vera kortlögð í hverju sveitarfélagi svo hægt sé að berjast fyrir úrbótum. Aðstöðumunur á þessu sviði milli íbúa landsins, svo ekki sé nú talað um aðstöðumun milli íbúa í hverju héraði fyrir sig, er ekkert annað en óþolandi og leiðir efalaust til áframhaldandi byggðaröskunar. Þetta er einfaldlega spurning um sambærileg lífsgæði í dreifbýlinu og sambærileg lífsgæði í dreifbýli og þéttbýli.
Eins þarf auðvitað að berjast hatrammri baráttu fyrir aukinni bandbreidd inn á svæðið og út af því. Fyrr er nú varla hægt að kalla þessa örbylgjutengingu frá Snerpu háhraðatengingu (fyrir utan nú hvað hún er óstöðug) og það er langt í frá að vera sami hluturinn ADSL tenging á Hólmavík og ADSL tenging víða annars staðar á landinu. Svo ekki sé nú minnst á að tryggja sambærileg kjör fyrir þjónustuna.
Jón Jónsson, Kirkjubóli