Aðsend grein: Sigurður Jóhannesson, framkvæmdastjóri SAH Afurða ehf.
Árið sem nú er að líða hefur á margan hátt verið viðburðaríkt þegar kemur að umræðu um matvæli og matvælaverð. Forystumenn miðstjórnar ASÍ hafa haft uppi stórorðar yfirlýsingar þar sem þess hefur verið krafist að tollum á erlend matvæli og þá fyrst og fremst erlendar landbúnaðarvörur verði aflétt. Sömuleiðis hamra þeir á að almenningur verði að gæta þess að ekki verði hækkanir á matvöru á næstu mánuðum. Hvað með aðrar vörur?
Forystumenn Samfylkingarinnar hafa haldið hinu sama fram og krafist afléttingu tolla á innfluttar landbúnaðarvörur á næstu tveimur árum. Þingmaður Samfylkingarinnar í NV kjördæmi, hefur líkt aðstæðum til framleiðslu og úrvinnslu landbúnaðarafurða á Íslandi og Nýja Sjálandi saman, sem er náttúrulega fásinna. Nýja Sjáland er eitt af bestu löndum heims til framleiðslu landbúnaðarafurða og stjórna Nýsjálendingar meirihluta heimsviðskipta með kjötvörur og mjólk.
Ýmsir þingmenn og í Sjálfstæðisflokknum á höfuðborgarsvæðinu hafa hvatt til óhefts innflutnings landbúnaðarvara og þingmenn hins hverfandi Framsóknarflokks virðast ekki hafa mátt til að gæta hagsmuna landsbyggðarinnar í þessu máli og andæfa kröfum um frjálsan innflutning landbúnaðarvara.
Hverskonar sjálfseyðingarhvöt erum við haldin? Samkvæmt flestum könnunum sem kanna lífsgæði, kaupmátt, kaupmáttaraukningu, langlífi og lífshamingju erum við Íslendingar nálægt toppnum eða á toppnum þegar Evrópa og jafnvel heimurinn allur er skoðaður. Beggja vegna Atlantshafsins keppast stjórnmálamenn við að tryggja hag síns landbúnaðar og þegna sinna en meðal annars þess vegna gengur illa að ná saman samningum um óheft heimsviðskipti með landbúnaðarvörur.
Hvers vegna eigum við Íslendingar að vera sporgönguaðili á þeim vettvangi og opna landið fyrir niðurgreiddum erlendum landbúnaðarvörum eða landbúnaðarvörum sem framleiddar eru með mjög lágt launuðu starfsfólki eða jafnvel barnaþrælkun? Er okkur sama hvaðan maturinn okkar kemur, eða hvort hann kemur yfirleitt? Hvar eru hagrænar varnir okkar? Í seinni heimsstyrjöldinni voru fiskveiðar Íslendinga mikilvægar til að fæða bresku þjóðina sem þá átti mjög undir högg að sækja. Framleiðsla íslenskra landbúnaðarvara er hluti af því að tryggja og viðhalda sjálfstæði þjóðarinnar. Hvar er hugsjón þeirra manna sem lögðu ríka áherslu á að brjóta land til ræktunar á Íslandi til að tryggja framboð innlendra landbúnaðarafurða svo landsmenn væru sem mest sjálfum sér nógir í þeim efnum. Var það hugsjón þeirra að fylla í skurðina í nafni mófugla, náttúruverndar, breyta ræktarlandi í mýrlendi og flytja inn “ódýrar” landbúnaðarvörur frá útlöndum? Ég held ekki.
Hví er það svo að innlendar landbúnaðarvörur, sem reyndar eru aðeins um 5-6% af útgjöldum heimilanna, eiga að vera ódýrar, en það virðist nánast ekki skipta máli hvað skór kosta, eða hvaða vexti við greiðum? Er það ekki umhugsunarvert að það kostar um 2400 krónur að raka einn karlmannshaus í Reykjavík, er reyndar ódýrara víða úti á landi, en það tekur um það bil 20 mínútur? Til samanburðar fær sauðfjárbóndi um 3000 kr. fyrir eitt meðallamb sem flutt er á erlendan markað. Það tekur um 10 mánuði frá getnaði til slátrunar að ala lambið og það kostar sitt. Hér er ekki til að dreifa opinberum styrkjum af neinu tagi.
Seðlabankinn heldur kjörvöxtum svo háum að í flestum vestrænum ríkjum yrði þeim sem innheimta slíka vexti boðið uppá vatn og brauð í all nokkurn tíma fyrir okurlánastarfsemi. Þessir okurvextir hafa áhrif á verðlag á Íslandi og ekki bara verðlag landbúnaðarvara, hver Íslendingur greiðir hátt í 50.000 kr. á ári í yfirdráttarvexti. Bankarnir græða einhverja milljarða á hverju ári. Afurðastöðvar í landbúnaði og kjötvinnslur hafa ekki skilað miklum hagnaði undanfarin ár, hægt er að telja samanlagt tap þeirra í milljörðum undanfarin 10 ár. Þrátt fyrir það hefur umtalsverð hagræðing átt sér stað, t.d. hefur aðilum sem slátra sauðfé fækkað úr 26 í 7 á 10 árum. Óvíða hefur jafnmikil hagræðing átt sér stað og henni verður að sjálfsögðu haldið áfram.
Framkvæmdastjóri innkaupasviðs Kaupáss hefur sent birgjum sínum bréf þar sem hann tilkynnir að engar verðhækkanir á vörum frá birgjum verði samþykktar á næstu mánuðum? Skyldi Seðlabankinn hafa fengið slíkt bréf þar sem tilkynnt er að vaxtahækkanir verði ekki samþykktar af hálfu Kaupáss næstu mánuðina, eða Reykjavíkurborg þar sem tilkynnt er að hækkun sorphirðugjalda eigi ekki við um verslanir Kaupáss?
Hvað er það sem réttlætir að á sama tíma og flestir landsmenn fá að minsta kosti 2.25% kauphækkun frá og með 1. janúar 2007, eigi þeir sem starfa við framleiðslu og úrvinnslu landbúnaðarvara að sætta sig við að sitja eftir, þ.e. njóta í litlu þess launaskriðs sem verið hefur í öðrum starfsgreinum? Frumframleiðendur eiga flestir á hættu að lækka í launum þann 1. mars þegar tollar á innfluttar landbúnaðarvörur verða lækkaðir verulega. Er það refsivert að vinna í þessum atvinnuvegi eða er það bara fólk sem miðstjórn ASÍ kallar “landbyggðarfólk” sem þarna vinnur, og þarf ekki á sömu launahækkunum að halda og aðrir landsmenn? Krafa landsbyggðarfólks er að sjálfsögðu sú að fá vinnu sína eðlilega launaða og að tekjurnar hækki með sama hætti og tekjur þeirra sem byggja höfðuborgarsvæðið. Þeirri kröfu geta forsvarsmenn ASÍ og Kaupáss ekki slegið á frest.
Nú um áramót hækka margar opinberar stofnanir hin ýmsu þjónustugjöld og bera við ýmsum orsökum, þ.m.t. launahækkunum. Ljóst er að forsendur bænda, afurðastöðva og kjötvinnslna eru í engu frábrugðnar forsendum umræddra stofnana, þörf er fyrir hækkanir á landbúnaðarvörum nú um áramót eigi þau fyrirtæki, starfsmenn þeirra og eigendur að njóta sömu lífsgæða og aðrir þegnar þessa þjóðfélags.
Víða úti á landi er landbúnaður og iðnaðarstarfsemi honum tengd hornsteinn byggðar. Í NV og NA kjördæmum má leiða að því líkur að um 10.000 manns hafi atvinnu og eða framfærslu af landbúnaði, úrvinnslu landbúnaðarvara eða afleiddum störfum. Erum við tilbúin til að fórna þessum störfum og byggð landsins fyrir það sem svarar einni mánaðarafborgun af meðal bílaláni í dag, en það er sú upphæð sem formaður nefndar um matvöruverð reiknaði út að gæti hugsanlega sparast árlega með óheftum innflutningi landbúnaðarvara?
Mig langar til að biðja landsmenn alla að íhuga vandlega hvernig við viljum sjá framtíð íslensks landbúnaðar og úrvinnslu íslenskra landbúnaðarafurða. Viljum við Íslendingar eiga kost á, heilnæmum og bragðgóðum íslenskum landbúnaðarvörum? Eða viljum við að íslenskur landbúnaður sé í því fólginn að nokkrar hræður klæði sig uppá í lopapeysu og sauðskinnskó standi á heimreiðinni og veifi til ferðamanna þegar þeir aka hjá og dásama sveitir landsins?
Ég hvet landsmenn alla til að sameinast að baki íslensks landbúnaðar svo unnt sé að tryggja til framtíðar gott framboð af heilnæmum íslenskum landbúnaðarvörum á verði sem tekur mið af tilkostnaði við framleiðslu þeirra og kaupgetu Íslendinga. Ég trúi á framtíð íslensks landbúnaðar svo fremi sem landsmenn standa fast að baki honum. Það leynast mörg sóknarfæri í hreinleika og gæðum þeirra vara sem við framleiðum. Þau sóknarfæri munum við kappkosta að nýta til sóknar.
Ég óska ykkur öllum velfarnaðar á komandi ári.
Sigurður Jóhannesson
Framkvæmdastjóri SAH Afurða ehf.