22/11/2024

Látum ekki Ríkisútvarpið fara sömu leið og Landssímann!!!

Aðsend grein: Jón Bjarnason, þingmaður
Sala Símans var ein heimskulegasta einkavæðing ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Bitnar sú aðgerð hart á íbúum landsins sérstaklega á landsbyggðinni. Þar upplifa nú flestir verri þjónustu og hærra verð enda bera símafyrirtækin engar samfélagsskyldur. Eina skylda þeirra er að tryggja eigendum sínum sem hæstan arð af fjármagninu.

Eitt mesta keppikefli ríkisstjórnarinnar á haustþingi var að fá einkavæðingu Ríkisútvarpsins samþykkta. Það furðulegasta var að forysta Framsóknarflokksins, með nýjan formann í broddi fylkingar, gekk þar harðast fram. Sótti Framsókn það mjög fast að ljúka einkavæðingu RÚV fyrir jól. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið sjálfum sér samkvæmur í að RÚV verði einkavætt og selt. Með einarðri baráttu þingmanna Vinstri grænna og annarra stjórnarandstæðinga tókst að fresta 3. umræðu um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins fram í janúar, þrátt fyrir hörð mótmæli þingmanna Framsóknarflokksins.

Nýr formaður Framsóknar fylgir einkavæðingarstefnunni

Ákafi Framsóknar í að einkavæða Ríkisútvarpið er afar furðulegur í ljósi þess að flokkssamþykktir þeirra á undanförnum árum ganga út á hið gagnstæða, að það verði ekki gert. En það er hinn nýi formaður Framsóknarflokksins, sem nú rekur hvað harðast á eftir „háeffun“ Ríkisútvarpsins.

Enn er þó hægt að koma í veg fyrir að Ríkisútvarpinu verði fórnað á  vagn markaðshyggjunnar, því að lokaumræðunni á Alþingi var frestað þar til í janúar

Ég held að fólk, ekki síst á landsbyggðinni, hafi fengið sig fullsatt af einkavæðingu Landsímans. Ég vona einlæglega að Framsóknarflokkurinn sem forðum átti bakgrunn í samvinnuhugsjóninni og ungmennafélagsandanum snúi frá villu síns vegar. Hin harða einkavæðingarstefna forystu Framsóknar bitnar nú harðast á þeim þjóðfélagshópum og landssvæðum sem í gegnum 90 ára sögu flokksins stóðu lengst af  hvað þéttast að baki honum.

Verjum Ríkisútvarpið – Þjóðarútvarp Íslendinga

Öflugt ríkisútvarp er nú sem fyrr aflvaki sjálfstæðs menningarsamfélags, hornsteinn þess lýðræðis sem þjóðin hefur barist fyrir. Við munum finna það vel þegar við njótum dagskrár sjónvarps og útvarps nú um jólin hvers virði þjóðarútvarp er. Íhugum jafnframt hvernig væri umhorfs, ef Ríkisútvarpið okkar væri horfið að fullu á altari markaðarins og peningahyggjunnar.

Einkavæðingu á þjóðarútvarpi landsmanna verður að stöðva!

Ég óska Strandamönnum og öllum lesendum „strandir.saudfjarsetur.is“ farsældar á nýju  ári með kærri þökk fyrir liðið ár.

Jón Bjarnason
alþingismaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi