Aðsend grein: Jón Jónsson
Niðurstaðan af þessum útreikningum mínum hefur verið sú að þetta borgi sig ekki þar sem fjármagna þyrfti uppbyggingu húsanna með lánum. Tíminn sem húsin yrðu í útleigu á ári hverju sé of stuttur, of dýrt sé að taka inn rafmagn, leggja að þeim vatn og frárennsli, koma upp heita pottinum sem er algjört möst í sumarhúsum úti í sveit en ekki endilega á gistihúsum o.s.frv.
Á hinn bóginn tel ég mjög líklegt að grundvöllur væri fyrir slíkum rekstri innanbæjar á Hólmavík (en sú staðsetning held ég að sé grundvallaratriði fyrir reksturinn), í göngufæri við alla aðra þjónustu. Sérstaklega væri snjallt ef einhver ferðaþjónn sem þegar er starfandi gæti séð um reksturinn og þjónustuna og hægt væri að sinna húsum og gestum í tengslum við annan rekstur. Þarna sé ég fyrir mér lágmark 5-6 sumarhús sem eru leigð út nótt og nótt í senn eða lengur eftir því sem viðskiptavinir óska. Á Hólmavík kæmi nálægð við sundlaugina í staðinn fyrir heita pottinn, miklu ódýrara er að taka inn rafmagn í þéttbýlinu en dreifbýlinu og margt fleira kemur til. Reksturinn yrði óhagkvæmari ef umfangið er minna.
Best væri auðvitað að einhver áhugasamur tæki af skarið og startaði slíku fyrirtæki á eigin forsendum og sæi um uppbyggingu og rekstur á slíkri gistingu í sumarhúsum. Mér þykist samt vita að það væri líka hægt að gera þetta í félagi, með því að margir aðilar stofni saman einkahlutafélag um reksturinn. Ég er viss um að ýmsir væru tilbúnir til að taka þátt í og eiga hluta í fyrirtæki sem sneri að því að koma slíkum húsum upp og koma þeim í rekstur. Fjárfestar, aðrir ferðaþjónar og iðnaðarmenn gætu til dæmis tekið þátt í fyrirtækinu og lagt ýmist fram fjármagn eða vinnu við ólíkustu þætti, allt frá smíðavinnu og flutningi til bókhaldsvinnu og markaðssetningar. Þetta yrði þá allt saman metið til fjár og eignarhlutar í fyrirtækinu.
Meira að segja mætti hugsa sér að sveitarfélagið gæti lagt fram sem framlag lóðir og lagnir og önnur hvor fjármálastofnunin á staðnum þá upphæð sem upp á vantar til að endar náist saman og annars þyrfti að taka að láni. Í báðum tilfellum yrði það metið sem hlutafé og stefnt að því að hlutafélagið sjálft eða aðrir hluthafar kaupi þann hlut af sveitarfélaginu og fjármálastofnuninni til baka á einhverjum árum. Hægt væri að semja við einhvern ferðaþjóninn um umsjón með rekstrinum gegn föstu gjaldi eða hluta af veltu. Eins þyrfti ákveðið hlutfall af innkomu að fara í viðhaldssjóð, áður en arður yrði greiddur til hluthafa.
Nokkrir staðir innanbæjar á Hólmavík koma til greina og margvíslegt fyrirkomulag bæði varðandi uppbyggingu og rekstri. Þetta yrði til að efla ferðaþjónustuna, það er engin spurning. Þetta gæti líka hugsanlega létt aðeins á eftirspurn brottfluttra eftir íbúðarhúsum á Hólmavík til að breyta í sumarhús, þó auðvitað verði líka á hverjum tíma að vera tilbúnar sumarhúsalóðir fyrir þá sem vilja eiga bústað inni í þorpinu.
Langar ekki einhverja að leggja í þetta pening eða vinnu? Það væri hægt að opna í vor.
Jón Jónsson, Kirkjubóli.