Svar Helgu Völu Helgadóttir við svargrein samgönguráðherra
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra svaraði í Fréttablaðinu og víðar ákalli mínu um aðgerðir í fjarskiptamálum. Hann ætlar okkur íbúum landsbyggðarinnar enn og aftur að þakka sér fyrir vel unnin verk í fjarskiptamálum. Vel unnin verk sem hann segir að séu á dagskrá á næstunni. Af þessu tilefni neyðist ég til að minna á að Sturla Böðvarsson hefur verið ráðherra samgöngumála á Íslandi frá árinu 1999. Hann ber ábyrgð á því ástandi sem er hér á landi, hvort sem um er að ræða samgöngumál eða fjarskiptamál. Það skiptir engu máli hverju hann lofar nú í aðdraganda kosninganna. Við verðum að skoða stöðuna eins og hún er í dag og hvernig hann sem þingmaður NV – kjördæmisins og samgönguráðherra hefur vanrækt þetta kjördæmi einna helst þegar kemur að samgöngu og fjarskiptamálum.
Sturla reynir að saka Samfylkingu og Vinstri græna um að hindra eðlilega þjónustu við fólkið á landinu. En það verður að minna Sturlu á það hafi hann gleymt því að hvorki Samfylking né VG hafa umboð til framkvæmda hér á landi. Þessir flokkar eru ekki í ríkisstjórn og því er ekki hægt að kenna þeim um hversu illa hefur verið staðið að samgöngu og fjarskiptamálum á undanförnum árum.
Sturla lofar háhraðatengingum um allt land. En hvað felst í orðinu háhraðatenging? Í dag eiga íbúar Vestfjarða kost á háhraðatengingu sem flytur 6 mb/s á meðan íbúar höfuðborgarsvæðisins fá allt að 12 mb/s fyrir sama verð. Við fáum með öðrum orðum verri þjónustu frá símafyrirtækinu en þurfum að greiða það sama og íbúar höfuðborgarsvæðisins. Ætlar Sturla sér að jafna þennan hlut okkar? Hefur hann í huga að niðurgreiða þá þjónustu sem einkafyrirtækin leggja ekki í að veita? Hann nefnir það í grein sinni að símafyrirtækin séu þegar búin að byggja upp háhraðaþjónustu með svokölluðum ADSL tengingum en þetta er langt í frá rétt. Réttara er að segja að símafyrirtækin bíða eftir fjármagni frá Fjarskiptasjóði, en hvenær framkvæmdir hefjast og hvort þjónustan verður sambærileg um allt land er óljóst.
Það er tómt mál að tala um að stjórnarandstöðuflokkarnir beri á einhvern hátt ábyrgð á gjörðum stjórnvalda. Sturla verður að sætta sig við eigið aðgerðarleysi. Sætta sig við þá staðreynd að íbúar landsbyggðarinnar hafa borið skarðan hlut frá borði þegar kemur að hans málaflokkum. Og á því ber hann ábyrgð.
Helga Vala Helgadóttir
gefur kost á sér í 2.-3. sæti á lista Samfylkingar í NV kjördæmi