25/11/2024

Röðin er komin að Norðvesturkjördæmi

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson
Ríkisstjórnin hefur ekki dregið af sér að styrkja byggð í Norðausturkjör-dæmi. Á síðasta kjörtímabili voru háðar stórar pólitískar orrustur um Eyjabakka og síðar um Kárahnjúka og að lokum tókst að fá framkvæmdaleyfi fyrir virkjunarfram-kvæmdum og ná samningum um álver í Reyðarfirði. Á þessu kjörtímabili hafa þessar miklu framkvæmdir, ásamt breytingum á húsnæðislánum og útþenslu bankanna að vísu, markað hagstjórnina. Gripið var til þess að fresta vegaframkvæmdum víða um land til þess að draga úr þenslunni. Seðlabankinn berst gegn verðbólgunni með hækkun stýrivaxta og gengið hefur farið með himinskautum. Sjávarútvegur og fleiri atvinnugreinar verða að þola tekjuskerðingu vegna gengishækkunarinnar og fyrir vikið hefur störfum í þeim fækkað.

Fáein dæmi skulu nefnd. Fyrir hálfu ári fóru helstu fyrirtækin á Bíldudal á hnén og lokuðu. Rækuvinnslan á Blönduósi er lokuð og á Hvammstanga var rækjuvinnslan fyrir skömmu að segja upp öllum sínum starfsmönnum. Forsvarsmenn fyrirtækis á Vesturlandi gengu á fund þingmanna fyrir skömmu og tilkynntu þeim að því yrði lokað fljótlega ef gengið breyttist ekki.

Í gær var tilkynnt um samkomulag milli Iðnaðarráðuneytisins og Alcoa þar sem stefnt er að nýju álveri við Húsavík. Vilji ríkisstjórnarinnar er svo einbeittur í atvinnuppbyggingunni á austanverðu Norðurlandi að fátt mun stöðva þau áform. Það er eðlilegt að hagnýta auðlindir landsins þannig að atvinnuuppbygging verði þar sem þær eru. Það á bæði við um Austurland og Norðurland. Þingeyingar eru vel að því komnir að njóta sinna orkuauðlinda.

En uppbygging á einum landshluta má ekki leiða til þess að veikja atvinnulíf á öðrum.

Minnumst þess að haustið 2003 sagði formaður Framsóknarflokksins að röðin væri komin að Norðvesturkjördæmi, enda atvinnu- og byggðaþróun á stórum svæðum í kjördæminu á þann veg að stórátak þarf til þess að snúa vörn í sókn, rétt eins og er verið að gera í Norðausturkjördæminu. Íbúum á Vestfjörðum hefur fækkað um 25% frá 1980 og í gamla Norðurlandi vestra um 11%. Skipuð var fjölmenn nefnd innan flokksins og hún skilaði af sér til formannsins mörgum góðum tillögum haustið 2004.

Þar var lagt til að næsta stóriðjuuppbygging yrði á vestanverðu Norðurlandi. Þar var lagt til að stofnaður yrði háskóli á Ísafirði innan þriggja ára. Þar var lagt til að Rarik á Vesturlandi og Norðurlandi vestra yrðu sameinuð Orkubúi Vestfjarða. Þar var lagt til að 80% af innheimtu veiðigjaldi í kjördæminu yrði nýtt til þess að fjármagna atvinnuuppbygginu. Ekkert af þessu hefur gengið eftir.

Röðin er komin að Norðvesturkjördæmi, það er rétt hjá formanni Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Eitt og annað ágætt hefur áunnist á kjörtímabilinu, en samt eru hvergi á landinu jafnstór landssvæði með jafnalvarlega fólksfækkun. Þar þarf á næstu árum að sýna einbeittan pólitískan vilja til þess að hrinda í framkvæmd tillögum sem liggja fyrir.

Vitað er að háskóli á Ísafirði myndi fljótlega stuðla að 700 manna fjölgun á Vestfjörðum. Vitað er að stóriðja á vestanverðu Norðurlandi muni fjölga fólki þar. Vitað er að aukinn byggðakvóti eykur atvinnu í þorpunum. Fiskimiðin eru auðlind alveg eins og jarðhiti.

Fólki hefur fækkað nóg í kjördæminu.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins
í Norðvesturkjördæmi – www.kristinn.is