22/11/2024

Er ekkert að frétta?!?

Aððsend grein: Arnar S. Jónsson.
Það er tiltölulega stutt síðan ég flutti til Reykjavíkur. Í rauninni eru ekki liðnir nema örfáir mánuðir síðan, núna er fyrsti vetrardagur og ég flutti snemma í júní. Ég vil byrja á því að óska öllum Strandamönnum góðs vetrar og um leið þakka fyrir sumarið sem var að renna sitt skeið á enda í fyrradag, sunnudaginn 23. okt.

Þegar ég bjó á Hólmavík var ég iðinn við að röfla í hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps um að halda íbúafund. Ég skrifaði meira að segja formlegt bréf þess efnis í september 2004. Í því kvartaði ég sáran yfir slælegu upplýsingaflæði og óskaði eftir íbúafundi. Hálfu ári seinna var fundurinn haldinn og þar komu fram ýmsar ágætar og gagnlegar upplýsingar frá öllum hreppsnefndarmönnum og sveitarstjóra.

Á íbúafundinum bar ég upp litla fyrirspurn í blálokin um hvað hreppsnefnd hyggðist gera til að bæta upplýsingaflæðið. Svörin voru ekki mörg en ágæt engu að síður. Einhverjir voru á því að flæðið væri alls ekki svo slæmt. Bent var á hreppsblaðið Fréttirnar til fólksins sem gagnlegt verkfæri, eitthvað var talað um að nýta vefinn www.strandir.saudfjarsetur.is til kynningarstarfs, rætt var lítillega um vefinn www.holmavik.is og örlítið talað um að koma fundargerðum nefnda á vegum hreppsins á þann ágæta vef o.s.frv. Alla vega voru menn ekkert á því að upplýsingastreymið ætti að verða nokkuð vandamál í framtíðinni.

Stíflaðar upplýsingalagnir

Þess vegna skil ég ekki stífluna sem virðist vera komin í það lagnakerfi sem ber upplýsingar frá Hólmavíkurhreppi til umheimsins og þá sér í lagi gegnum internetið. Engar fundargerðir hreppsnefndar hafa verið birtar á vef Hólmavíkur­hrepps síðan í maí sl. Hvergi á netinu er að finna beinar upplýsingar eða heimildir um þau verkefni sem hreppurinn vinnur að. Hvergi á netinu er hægt að nálgast eyðublöð eða fundargerðir einstakra nefnda Hólmavíkurhrepps og hreppurinn birtir ekki auglýsingar eða tilkynningar á vef sínum. Það þarf engan sérfræðing  til að átta sig á því að í upplýsingasamfélagi nútímans er Hólmavíkurhreppur að standa sig virkilega illa – uppfærslur á efni vefjarins www.holmavik.is eru ekki til staðar að neinu leyti.

En er svona mikið mál að halda úti þokkalega skotheldum og uppfærðum vef? Nei, alla vega ekki ef eitthvað er að marka stuttan rúnt greinarhöfundar um vefi nokkurra vestfirska sveitarfélaga. Á vefjum Vesturbyggðar, Reykhólahrepps, Tálknafjarðarhrepps, Súðavíkur og Bolungarvíkur er án undantekninga hægt að nálgast nýjustu fundargerðir hreppsnefnda sveitarfélaganna. Á öllum þessum vefjum er líka að finna fundargerðir allra annarra nefnda í sveitarfélaginu, ýmis eyðublöð og upplýsingar, ítarleg yfirlit yfir nefndir og ráð og stundum litlar fréttasíður sem innihalda annað hvort tilkynningar eða auglýsingar frá sveitarfélaginu. Engir af þessum þáttum krefjast þess að efni sé sett inn á vefinn á hverjum einasta degi, síður en svo.

Vefurinn er öflugt tæki

Það er engin spurning að veraldarvefurinn er öflugt upplýsinga- og markaðssetningar­verkfæri. Sveitarfélög eins og Hólmavíkurhreppur þurfa að nýta sér þetta verkfæri og hampa því sem andliti sveitarfélagsins í netheimum. Fyrir utan þægindi þess að hafa geta bent fólki á að fylla t.d. eyðublöð eða lesa fundargerðir á netinu hjálpar góður vefur hreppsnefnd, sveitarstjóra, starfsmönnum, íbúum og öllum öðrum að hafa yfirsýn yfir verkefni og málefni sem skipta máli fyrir heill og fram­tíð sveitarfélagsins. Góður vefur getur líka hjálpað til í þeirri baráttu Hólmavíkurhrepps gegn fólksfækkun – ef ungir Strandamenn í námi erlendis eða hérlendis eru upplýstari um allt það frábæra sem verið er að vinna að í heimahögunum aukast líkurnar á því að þeir snúi til baka örugglega um örfá prósent.

Ég vona að einhverjir hreppsnefndarmenn hafi nennt að lesa þetta bréfkorn. Einhverjir þeirra eru eflaust ekki sammála öllu sem í því stendur en kannski nefnir einhver efni bréfsins þegar kemur að liðnum „Önnur mál“ á næsta hreppsnefndarfundi. Vonandi getum við þá öll lesið fundargerðina á vefnum nokkrum dögum seinna …

Arnar S. Jónsson