22/11/2024

Þeir sem borga stóriðjutollinn

Aðsend grein: Jón Bjarnason
Kárahnjúkavirkjun ætlar að reynast þjóðinni dýr. Orkan er seld til stóriðju á spottprís en almennir notendur látnir borga fórnarkostnaðinn. Fjárhagslegur ábati þjóðarinnar er talinn hverfandi því aðföng öll eru innflutt, virkjunin reist fyrir erlent lánsfé, rafmagnið selt á útsöluverði og meginþorri vinnuaflsins tímabundið erlent vinnuafl, sem fer með launin beint úr landi. Þeim fjölgar nú ört sem draga í efa að álversframkvæmdirnar á Austurlandi standi undir þeim væntingum sem heimamönnum var talin trú um.

Margur hugði að nú yrði látið staðar numið  eða hægt á stóriðjunni uns sæist fyrir endann á Kárahnjúkavirkjun og Reyðaráli. Aðrar atvinnugreinar voru beðnar um að sýna biðlund og þreyja óhagstætt gengi, erlenda skuldasöfnun og innflutning á ódýru vinnuafli. Meira að segja brýnar vegaframkvæmdir á Vestfjörðum og  Norðurlandi  voru  skornar niður um milljarða króna og loforð svikin allt til að halda niðri þenslu meðan stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan gengju yfir.
 
 
Nú skulu Bílddælingar borga

Alveg fram á síðustu ár hefur Bíldudalur skipað mikilvægan sess í útgerð og fiskvinnslu hér á landi. Gjöful fiskimið, atorkusamir sjómenn og vinnufúsar hendur í landi  áttu drjúgan hlut að því að gera okkur að einni ríkustu þjóð heims. Ef rétt væri á málum haldið  og forgangsréttur byggðanna að auðlindum sínum virtur, eiga  Bíldælingar allan rétt á  að fara áfram með stóran hlut í öflun þjóðartekna. Í stefnu Vinstri grænna er þess krafist að íbúar sjávarbyggðanna eigi forgangsrétt að fiskimiðunum meðfram ströndum landsins.

Að leita fyllstu hagkvæmni í atvinnurekstri er sjálfsagt. En sú stefna sem krefst þess að heilu atvinnugreinunum sé "hagrætt í hel" er miskunnarlaus gagnvart fólkinu og stórskaðleg þjóðinni er til lengri tíma er litið.

Í viðtali á Bæjarins Besta 1. júní sl. segir Jens Valdimarsson framkvæmdastjóri fiskvinnslufyritækisins  Bílddælings :
"Gengi krónunnar  hefur styrkst mjög mikið að undanförnu vegna framkvæmda  fyrir austan og það hefur veikt grundvöll fiskvinnslunnar. Það eru miklar væntingar til stóriðju og það fundum við á dögunum þegar umræðan hófst um hugsanlega stóriðju á Suðurnesjum. Þá styrktist gengi krónunnar að nýju og því er sjávarútvegurinn og fólkið í sjávarbyggðunum að greiða herkostnaðinn af virkjunum og stóriðju eystra".

Fórnirnar halda áfram. Og nú er komið að íbúum Bíldudals að greiða stóriðjutollinn.
 

Við krefjumst nýrrar stefnu í atvinnumálum.

Hvar er nú umhyggja Sjálfstæðisflokksins fyrir einstaklingsframtakinu og fjölbreyttri flóru atvinnulífsins? Er það vilji þeirra að heilu atvinnugreinarnar leggist af og annar hver Íslendingur vinni í útlendum álverum? Er þjóðin reiðubúin að færa ótakmarkaðar fórnir á náttúruperlum, atvinnulífi og búsetu fólks fyrir álæði Framsóknarflokksins? Ég held ekki.

Sveitarstjórnir á Vestfjörðum, Norðurlandi og um allt land svo og verkalýðsfélögin og samtök atvinnulífsins, ekki síst ferðaþjónustunnar, eiga að styðja kröfu Vinstri grænna og  krefjast þess að stjórnvöld fresti nú þegar öllum áformum um frekari uppbyggingu stóriðju og stórvirkjana en gefi öðru atvinnulífi svigrúm og efnahagslífinu tækifæri að ná stöðugleika að nýju.
 
Jón Bjarnason  þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi