22/11/2024

Námsvísir Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða kominn út

580-fagnamskeid
Nýr námsvísir Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða fyrir veturinn 2013-2014 er kominn út og hefur verið dreift inn á heimili á Vestfjörðum. Meðal þess sem í boði er á Ströndum í vetur er síðari hluti Skrifstofuskólans sem er 240 kennslustunda nám sem hófst vorið 2013. Þetta nám hefst fljótlega og lýkur í desember. Enn er hægt að bætast við, en nú er um tugur skráður til þátttöku. Á vorönn verður í boði 95 kennslustunda nám sem heitir Aftur í nám og er ætlað þeim sem glíma við lestrar- og skriftarörðugleika.

Svæðisleiðsögunám á Vestfjörðum hefst eftir áramót og stendur í þrjár annir. Þar er um að ræða 264 kennslustunda réttindanám sem fer fram um alla Vestfirði með helgarlotum og heimavinnu.

Námskeið í málmsuðu fer fram á Hólmavík 19.-20. október og er 9 kennslustundir. Eins er fyrirhugað 24 kennslustunda nám í ensku fyrir byrjendur og/eða lengra komna.

Nýr starfsmaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á Hólmavík er Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir. Hún hefur aðstöðu í Þróunarsetrinu á Hólmavík.