Bráðskemmtileg bókakynning var haldin á Hótel Laugarhóli í dag, en þar kynnti Tapio Koivukari bók sína Ariasman – frásaga af hvalföngurum, ásamt þýðanda bókarinnar Sigurði Karlssyni. Tapio Koivukari er finnskur rithöfundur og bókin er söguleg skáldsaga um Spánverjavígin 1615 sem Ari sýslumaður í Ögri stóð fyrir. Tapio hefur búið á Vestfjörðum og talar íslensku. Einnig kynnti Eiríkur Örn Norðdal nýja skáldsögu sem heitir Illska. Hún fjallar um helförina og ástina, um Ísland og Litháen.
Skemmtilegar umræður sköpuðust í kjölfar lestursins, enda eru Strandamenn vel að sér um sögu baskneska hvalfangara á Íslandi. Umræðurnar náðu hápunkti þegar Tapio Koivukari gaf Vigdísi Grímsdóttur rithöfundi sem var meðal áheyranda finnska fjandafælu. Sú gerð af fjandafælu er tréáhald sem nota má til að framleiða hávaða og fæla burtu meðalmagnaða drauga.
Bókakynning í Laugarhóli – ljósm. Jón Jónsson