Eins og kunnugt er verður þjóðaratkvæðagreiðsla á laugardaginn kemur um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá fyrir Ísland og ýmis álitaefni sem tengjast undirbúningi hennar. Í fréttatilkynningu frá kjörstjórn í Strandabyggð kemur fram að ein kjördeild verður í Strandabyggð og verður kjörstaður í Hnyðju, neðstu hæð Þróunarsetursins að Höfðagötu 3 á Hólmavík. Ekki hefur verið kjörfundur þar áður. Kjörstaður verður opinn frá kl. 10:00 -17:00 segir í tilkynningunni. Í Árneshreppi er kosið í Félagsheimilinu Árnesi í Trékyllisvík og verður kjörstaður opnaður kl. 10:00. Á kjörskrá í Árneshreppi eru 43, karlar eru 25 og 18 konur, segir á www.litlihjalli.is.