25/11/2024

Heilsuefling í Strandabyggð allan september


Hafið er heilsuátak í Strandabyggð og verður allur septembermánuður undirlagður í atburðum og útivist, æfingum og fróðleik. Það er Ingibjörg Benediktsdóttir sem hefur umsjón með átakinu, en markmið þess og tilgangur er að efla heilbrigði og vitund um mikilvægi góðrar heilsu. Ætlunin er að skapa íbúum sveitarfélagsins tækifæri til að afla sér þekkingar, hreyfa sig í samræmi við eigin getu og verja tíma með fjölskyldu sinni við fjölbreyttar tómstundir sem stuðla að bættri líðan og heilsu. Átakið hefst af krafti strax um helgina en þá heldur Rakel Sigurðardóttir næringar- og heilsuráðgjafi tvo fróðlega fyrirlestra í Hnyðju (neðstu hæð Þróunarsetursins).

Fyrri fyrirlesturinn hefst kl. 11:00 og ber heitið Börn, mataræði og heilsa, en sá seinni hefst kl. 16:00 og hefur yfirskriftina Næring og heilsa fyrir lífið. Sunnudaginn 2. september býður Rakel síðan upp á einstaklingsráðgjöf (pantanir í s. 663-0497). Allir eru velkomnir á fyrirlestrana.

Heilsuefling í Strandabyggð er með sérstakan vef á heimasíðu Strandabyggðar – www.strandabyggd.is.