30/12/2024

Styrkir úr menningarsjóði KSH 2012


Á aðalfundi Kaupfélags Steingrímsfjarðar í byrjun maí var tilkynnt um úthlutanir úr menningarsjóði KSH árið 2012, en að þessu sinni var úthlutað styrkjum að upphæð samtals 300.000.- til fimm aðila á grundvelli umsókna sem bárust. Þetta kemur fram á vefnum www.ksholm.is. Á aðalfundinum var einnig úthlutað sérstökum styrk til Björgunarsveitarinnar Dagrenningarinnar á Hólmavík. Björgunarsveitin hefur á liðnum vetri sinnt fjöldamörgum útköllum með sóma og ákvað stjórn Kaupfélags Steingrímsfjarðar að veita kr. 100.000 styrk til starfs sveitarinnar. Þeir sem fengu styrki úr menningarsjóði Kaupfélagsins að þessu sinni voru eftirtaldir:

Félagsmiðstöðin Ozon, kr. 50.000 til styrktar starfsemi miðstöðvarinnar. Félagsmiðstöðin er fyrir ungt fólk í Strandabyggð til að hittast, vinna að sköpun og margvíslegum verkefnum og hefur starfsemi miðstöðvarinnar verið einstaklega öflug á liðnum vetri.

Félag eldri borgara í Strandasýslu, kr. 50.000 til árlegrar sumarferðar en að þessu sinni er stefnan sett á Suðurlandið. Í félaginu er 83 félagar úr öllum sveitarfélögum Strandasýslu.

Hamingjudagar á Hólmavík, kr. 50.000 vegna Hamingjudaga 2012. Hamingjudagar á Hólmavík voru fyrst haldnir árið 2005 og verða í ár dagana 29. júní til 1. júlí. Von er á fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá að venju og má sjá yfirlit yfir viðburði og dagskrá á www.hamingjudagar.is

Sauðfjársetur á Ströndum, kr. 50.000 til sérsýninga sumarið 2012. Sauðfjársetur á Ströndum fagnar í ár 10 ára starfsafmæli og verður dagskrá sumarsins sérlega vegleg af því tilefni.

Skíðafélag Strandamanna, kr. 50.000 vegna Strandagöngunnar 2012. Strandagangan var haldin í fyrsta skipti árið 1995 og er vinsæl keppni meðal skíðafólks um land allt. Skíðafélag Strandamanna hlaut einnig viðbótarúthlutun, kr. 50.000, vegna öflugs frumkvöðlastarfs við uppbyggingu skíðamiðstöðvar í Selárdal.