Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í gær var ákveðið nafn á neðstu hæð Þróunarsetursins á Hólmavík, en 117 tillögur að nöfnum bárust í samkeppni þar um. Niðurstaðan varð að neðsta hæðin heitir Hnyðja. Þar er opið fjölnota rými fyrir fundi, námskeið, sýningar, móttökur og uppákomur. Einnig verður þar móttaka Strandabyggðar og var hún flutt niður í Hnyðju í gær með tilheyrandi truflunum á net- og símasambandi í húsinu. Hér er um að ræða mikla og jákvæða breytingu á aðgengi að sveitarfélaginu, en árum saman hefur fólk þurft að príla stiga til að nálgast afgreiðslu þess eða sitja fundi.
Við framkvæmdir á hæðinni sem sveitarfélagið Strandabyggð hefur staðið fyrir í vetur með þátttöku fleiri aðila s.s. Þróunarsetursins á Hólmavík og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða var sérstaklega hugað að aðgengi fólks með skerta hreyfigetu.
Formleg opnun Hnyðju verður haldin föstudaginn 4. maí og verður auglýst nánar síðar.