22/11/2024

Samkeppni um nafn á neðstu hæð Þróunarsetursins


Sveitarfélagið Strandabyggð blæs nú til samkeppni um nafn á neðstu hæðina í Þróunarsetrinu. Skila þarf hugmyndum að nafni á skrifstofu Strandabyggðar fyrir kl. 12:00 á hádegi föstudaginn 13. apríl 2012 eða í netfang Arnars S. Jónssonar tómstundafulltrúa – tomstundafulltrui@strandabyggd.is. Sveitarstjórn Strandabyggðar mun svo velja nafn á fundi sveitarstjórnar sem haldinn verður 17. apríl 2012. Strandamenn nær og fjær og landsmenn allir, ungir sem aldnir eru hvattir til að taka þátt í þessari skemmtilegu keppni! Vinningshafi verður heiðraður sérstaklega á formlegri opnunarhátíð neðstu hæðarinnar nú í vor.

Neðsta hæð Þróunarsetursins verður notuð sem móttaka sveitarfélagsins Strandabyggðar, fundaraðstaða, fræðsluaðstaða auk þess sem hún verður nýtt sem sýningar- og viðburðarými.

Þá er fyrirhugað að framhaldsdeild á Hólmavík geti hafið starfsemi sína á neðstu hæðinni en umsókn sveitarstjórnar um stofnun framhaldsdeildar á Hólmavík hefur verið vísað til fjárlagagerðar fyrir árið 2013.

Þróunarsetrið á Hólmavík og Fræðslumiðstöð Vestfjarða koma að enduruppbyggingu neðstu hæðarinnar með sveitarfélaginu Strandabyggð, auk þess sem sótt er um styrki í verkefnið.