Á vef Strandabyggðar kemur fram að í fyrsta skipti eiga Strandamenn hljómsveit á listanum yfir þær sveitir sem koma frá á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði. Það eru Gógó-píurnar sem hafa gert það gott undanfarið, m.a. hitað upp fyrir Retro Stefson, unnið SamVest í Súðavík og lentu í þriðja sæti á Söngkeppni Samfés í marsbyrjun. Sveitin kemur fram á föstudeginum, fyrst ein og sér og síðan ásamt hljómsveitinni Cutaways sem er skipuð ungum strákum úr Súðavík sem einnig kepptu í Söngkeppni Samfés. Það er því rík ástæða fyrir Strandamenn til að renna vestur á Ísafjörð föstudaginn langa.
Aldrei fór ég suður er nú haldin í níunda skipti og hefur hátíðin sjaldan verið veglegri. Sjá má lista yfir hljómsveitir sem koma fram með því að smella hér.