Strandamenn fylgjast örugglega margir vel með Stundinni okkar í vetur. Þar ræður Sunna Karítas Oktavía Torfhildur Tildurrófa Aðaldal ríkjum, en hún er oftast kölluð Skotta. Fyrir nokkru kom Stundin okkar til Hólmavíkur að taka upp efni og var umsjónarmaðurinn Margrét Sverrisdóttir með í för. Þau fylgdu nemendum í 3. bekk eftir, heimsóttu Galdrasýninguna, fóru í vettvangsferð um Hólmavík, heimsóttu skólann og leikskólann Lækjarbrekku, ræddu við nemendur í Tónskólanum og tóku upp nokkur lög með þeim. Það var mikil spenna og tilhlökkun í nemendahópnum sem hafði gaman af þátttökunni í þessu verkefni.
Efnið frá Hólmavík verður unnið og klippt niður og sýnt sem stutt innslög í Stundinni okkar í vetur. Á vef Grunnskólans á Hólmavík má sjá myndasafn frá heimsókninni.
Meðfylgjandi mynd tók Margrét Sverrisdóttir.