22/12/2024

Menntaþing á Ströndum – dagskrá

Dansskóli á HólmavíkMenntaþing verður haldið í Félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 12. janúar 2012. Þingið hefst kl. 16:30, en þar verður fjallað um mikilvægi þroska og menntunar fólks á öllum aldursstigum. Þingið er liður í 100 ára afmæli skólahalds á Hólmavík. Afmælinu hefur m.a. verið fagnað með glæsilegri leiksýningu Grunn- og Tónskólans á Hólmavík þar sem nemendur og kennarar rifjuðu upp 100 ára sögu skólahalds í leikgerð Arnars S. Jónssonar tómstundafulltrúa Strandabyggðar. Þá hélt sveitarfélagið veglega afmælishátíð síðastliðið vor. Á Menntaþingi verður horft til framtíðar og hvert er stefnt í skólahaldi á Ströndum.

Dagskrá Menntaþings á Ströndum 2012

Setning þingsins
Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar

Ávarp
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra

Flæði og kenningar Mihaly Csikszentmihalyi
Kristín Gísladóttir og Margrét Halldóra Gísladóttir leikskólastjórnendur í Uglukletti í Borgarbyggð kynna leikskólastefnuna Flæði sem verið er að innleiða í leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík.

Menntun barna
Margrét Pála Ólafsdóttir skólastjóri, uppeldisfrömuður og hugmyndasmiður Hjallastefnunnar fjallar um mikilvægar áherslur í skólastarfi og menntun barna.

Menntun og möguleikar
Arnar S. Jónsson Tómstundafulltrúi Strandabyggðar fjallar um menntun og menntunarmöguleika frá unglingsárum til fullorðinsára.

Lærum allt lífið
Björn Vilhjálmsson meistaranemi í fullorðinsfræðslu fjallar um þroska, lærdóm allt lífið og hugtakið ,,lifuð þekking".

Pallborðsumræður verða að þinginu loknu. Einnig koma nemendur úr Tónskólanum á Hólmavík fram með tónlistaratriði auk þess sem leikskólinn Lækjarbrekka, Grunn- og Tónskólinn á Hólmavík og Fræðslumiðstöð Vestfjarða verða með kynningu á starfsemi sinni fyrir gesti þingsins.

Fundarstjóri er Ingibjörg Benediktsdóttir formaður Menntasviðs í Strandabyggð.

Allir íbúar á Ströndum og í nágrannasveitarfélögum sem og aðrir landsmenn eru boðnir hjartanlega velkomnir á þingið.

Foreldrar eru beðnir að athuga að allt skólahald fellur niður fimmtudaginn 12. janúar eftir kl. 14:00 vegna Menntaþings.