Slökkvilið Strandabyggðar vill leggja sitt af mörkum við að aðstoða íbúa Strandabyggðar að tryggja öryggi heimila og vinnustaða sem best nú þegar jólahátíðin fer í hönd. Slökkviliðið býður eldri borgurum að koma heim til þeirra og skipta um rafhlöður í reykskynjurum, fara með slökkvitæki í yfirhalningu og koma með þau aftur. Þeir sem þess óska geta hringt í síma 893-3531. Þá mun slökkvitækjaþjónustan Aðgát bjóða upp á slökkvitækjaþjónustu 10.-11. desember í slökkvistöðinni á Skeiðinu. Hægt verður að koma með tæki frá kl. 10:00 – 15:00 á laugardaginn og sækja þau aftur á sunnudaginn milli kl. 13:00 – 15:00. Einnig eru til sölu slökkvitæki, reykskynjarar og eldvarnarteppi.
Slökkvilið Strandabyggðar bendir á að yfirfara þarf handslökkvitæki helst á hverju ári, alls ekki minna en á 2 ára fresti, til að tryggja að það sé i lagi. Fyrirtækjum ber lögum samkvæmt að láta skoða tækin árlega. Einnig viljum við benda á mikilvægi reykskynjara, að prófa ætti þá minnst einu sinni í mánuði og nauðsynlegt er að skipta um rafhlöður í þeim einu sinni á ári.
Mikilvægt er einnig að eldvarnarteppi séu til á hverju heimili og öllum kaffistofum þar sem einhver hitun fer fram, t.d. brauðrist.
Slökkvilið Strandabyggðar óskar Strandamönnum öllum gleðilegra jóla.