Leikhúsgagnrýni: Arnar S. Jónsson
Föstudaginn síðasta skrapp ég í leikhús í Bragganum á Hólmavík. Var aldrei þessu vant í hlutverki hreinræktaðs leikhúsgests sem hafði ekki séð snefil af sýningunni áður, þó svo að hún hafi verið í æfingu á Hólmavík undanfarnar vikur. Það fannst mér skrítið, en um leið dálítið skemmtilegt. Leikarinn er Smári Gunnarsson og leikstjóri Árni Grétar Jóhannsson, báðir útskrifaðir úr Rose Buford í London; þeim þekkta sviðslistaskóla.
Smári er Hólmvíkingur að uppruna og um þennan uppruna snýst verkið að nokkru leyti. Sögusviðið er að stórum hluta Hólmavík 1963 þegar Norðmaðurinn og erkiHólmvíkingurinn Einar Hansen dró suðræna leðurskjaldböku á land á Hólmavík. Einstakur atburður á landsvísu. Þetta sögusvið blandast síðan upplifun Smára sjálfs gagnvart Einari sem bað hann um að passa fyrir sig árabátinn sinn þegar Smári var sex ára.
Í stuttu máli sagt skemmti ég mér frábærlega í leikhúsinu í gær. Náði að upplifa miklar tillfinningasveiflur; mikil gleði, spenna, eftirvænting og eftirsjá. Smári fer yfir ótrúlega vítt svið í leikritinu. Í raun má segja að sviðið sem hann standi á í miðjum gamla Bragganum sé tilfinningasvið mannsins og hann leikur í öllu rýminu (líka í bókstaflegri merkingu). Smári sýnir svo ekki verður um villst að hann er lærður leikari; hér er engin áhugamennska á ferðinni.
Sviðsmyndin er skemmtilega leyst og lýsing með ágætum. Sviðsmunir fáir og einfaldir og þjónuðu sýningunni vel. Á sýningunni er talsvert af áhrifahljóðum sem virka geysilega vel með leiknum, en hljómgæði hefðu á einum eða tveimur stöðum mátt vera betri. Allar tæknilausnir virka mjög vel og það er gaman að Smári og Árni Grétar hafar gefið ungum og efnilegum tæknimönnum stórt og ábyrgðarmikið hlutverk í sýningunni. Þeir stóðu sig vel.
Ég ætla ekki að gefa of mikið uppi um leikritið sjálft. Þó verð ég að segja að mér fannst eitt flottasta atriðið þegar Smári fjallaði um sjómennskuna; hvað þarf að hafa til brunns að bera til að vera sjómaður og hvernig karlmennskan verpist í kringum þennan magnaða atvinnuveg. Þá hafði ég sérstaklega gaman af raunvísindakappanum og atriðið með hólmvísku blómarósunum var sérstaklega skemmtilegt. Æi, það er nógu að taka; of mörgu til að telja eitthvað eitt eða tvennt upp. Svo er leikritið líka fyndið án þess að gert sé grín að einhverjum. Það er kostur en oft hefur mér fundist þetta vera þunn lína til að dansa á. Smára hefur tekist það vel í samningu verksins.
Strákurinn er flottur leikari. Ég var hrifnastur af líkamsbeitingu hans og mjög sterkri tilfinningu gagnvart verkinu, Þá sýnir hann mikla virðingu gagnvart viðfangsefninu þó svo að fjörið sé oft á tíðum mikið. Langbestur er leikarinn þó þegar hann staldrar við og gefur leikritinu, persónunum og framvindu sögunnar smá rými til að anda. Þessi stuttu andartök eru svo vel tímasett og "rétt" að unun er á að horfa og finna. Í eitt skiptið, seint í leikritinu, klökknaði ég yfir vel útfærðri þögn í senu sem ég sá ekki betur en að snerist að einhverju leyti um samruna litla stráksins við gamla sjómanninn; líkamsbeiting Smára var á þann veg að í henni mátti sjá þessa tvo ólíku menn í einum kroppi. Magnað augnablik.
Það eina sem vantaði í Braggann í gær voru fleiri áhorfendur. Ég vil hvetja sem allra, allra, allra, allra flesta til að láta Skjaldbökuna ekki fram hjá sér fara – ekki vera hérinn í ævintýrinu. Allir sem tengingu hafa við Hólmavík munu hafa gaman af sýningunni, en allir hinir sem aldrei hafa heyrt um Einar Hansen og skjaldbökuævintýrið munu skemmta sér líka.
Næstu tvær sýningar, SÍÐUSTU AUGLÝSTU SÝNINGARNAR Á HÓLMAVÍK, eru föstudagskvöldin 15. og 22. júlí, í Bragganum kl. 20:00. Ekki missa af þessu verki. Gerðu það. Plís.
Og takk, Smári minn. Sýningin þín er fyrst og fremst falleg. Takk fyrir það.
Arnar S. Jónsson,
tómstundafulltrúi Strandabyggðar