Gríðarmikil stemmning var á Idol-partýi í Félagsheimilinu á Hólmavík í gær. Þar söfnuðust Strandamenn saman og fylgdust með Hildi Völu og Heiðu Ólafs keppa til úrslita um titilinn IDOL stjarna Íslands í beinni útsendingu Stöðvar 2 á breiðtjaldi. Ætla má að um það bil 300 manns hafi mætt á svæðið. Þær stöllur stóðu sig frábærlega að venju, en það var að lokum Hildur Vala sem fór með sigur af hólmi í símakosningu þar sem samtals 135 þúsund atkvæði bárust. Strandamenn óska henni hjartanlega til hamingju með titilinn og þakka Heiðu kærlega fyrir að hafa skemmt okkur og glatt í allan vetur með frábærri frammistöðu í keppninni.
Hér að neðan gefur að líta nokkrar myndir frá keppninni og fjölmargar aðrar má svo finna á þessari síðu með myndasafni frá keppninni.
Ljósm. Jón Jónsson