22/11/2024

Eftirlit með veitinga- og gististöðum

Í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum um helstu verkefni í vikunni sem var að líða kemur fram að lögregla var við eftirlit með veitinga- og gististöðum í umdæminu og var einum veitingastað og einum gististað lokað. Veðurfar og færð á vegum frekar leiðinlegt og lentu þó nokkrir vegfarendur í vandræðum á fjallvegum vegna snjóa. Þurfti að aðstoða nokkra ökumenn vegna þess og voru björgunarsveitir á Suðurfjörðum og Hólmavík fengnar til aðstoðar.

Fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Vestfjörðum í vikunni. Þann 16. maí var tilkynnt um tvö minniháttar óhöpp á Ísafirði. 18. maí varð umferðaróhapp í Vestfjarðargöngunum, ökumaður var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar. Þann 20. maí hafnaði bifreið út af veginum í Súgandafirði, ekki varð slys á fólki.

Tveir voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur, annar í Skutulsfirði og hinn í nágrenni við Reykhóla. Sá sem hraðar ók, var mældur á 123 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst.