22/11/2024

Ísbjörn í Hælavík

Ísbjörn sást í fjörunni í Hælavík á Hornströndum rétt fyrir klukkan níu í morgun. Þetta kemur fram á mbl.is. Það var áhöfn fiskibáts sem sá björninn og tilkynnti þegar um hann. Að sögn Hrafnhildar Brynju Stefánsdóttur upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar fer þyrla Gæslunnar vestur innan tíðar til að athuga málið. Málið er í höndum Umhverfisstofnunar og lögreglu sem mun taka ákvörðun um framhaldið. Að sögn Kristins Más Ársælssonar, upplýsingafulltrúa Umhverfisstofnunar, hefur verið haft samband við þá ferðamenn sem vitað er um á svæðinu. Þeir sem vita af ferðum fólks á þessum slóðum eru beðnir um að láta lögregluna á Vestfjörðum vita.