22/11/2024

Götur á Hólmavík nefndar eftir hólmvískum konum

300-kvennadagur03Karlar á Hólmavík hafa heiðrað kvenþjóðina sérstaklega á Kvennafrídeginum í dag, með því að endurnefna allar götur á Hólmavík eftir nokkrum konum sem sett hafa svip á bæjarlífið á Hólmavík fyrr og nú. Í þeim hópi eru jafnt kvenskörungar og hvunndagshetjur, lífs og liðnar. Karlarnir hafa komið fyrir sautján nýjum götuskiltum víðsvegar um Hólmavík sem verða uppi í viku. Þessi gjörningur er hugsaður sem virðingarvottur til allra kvenna sem hafa lifað og búið á Hólmavík frá öndverðu til dagsins í dag. Með þessu vill karlpeningurinn á Hólmavík sýna stuðning sinn við jafnréttisbaráttuna og taka heilshugar undir þá sjálfsögðu kröfu að konur njóti sömu launakjara og karlar og eigi almennt sömu möguleika í lífinu.

Sautján götur hafa verið merktar nöfnum valinkunnra hólmvískra kvenna og verður yfirlit um þær birt hér á strandir.saudfjarsetur.is síðar í dag. Ákveðið var á fundi karlanna sem fyrir verkefninu standa að konurnar sem göturnar yrðu nefndar eftir, skildu hafa verið orðnar fullorðnar á fyrsta kvennafrídeginum árið 1975. Þann dag lögðu konur niður vinnu og talið er að 90% kvenna í landinu hafi staðið saman og krafist sambærilegra réttinda og karlmenn. Jafnvitlaust og það er, þá er það staðreynd að takmarkinu er ekki náð.

Kvennafrídagurinn í ár er helgaður baráttu kvenna gegn kynbundnu ofbeldi. Kynbundið ofbeldi er sprottið af sama meiði og annað misrétti sem konur standa frammi fyrir og hefur aðeins að hluta til náð að brjótast upp á yfirborðið sem viðurkenndur vandi. Nægir í því sambandi að nefna misréttið sem viðgengst á vinnumarkaðnum og birtist í kynbundnum launamun og almennt minni framamöguleikum.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur hvatt konur á Hólmavík til að leggja niður vinnu á kvennafrídeginum í dag og ganga út af vinnustöðunum kl. 14:25. Það er einmitt sá tími dagsins sem karlar almennt hafa náð sömu launatölu og konur hafa að jafnaði eftir fullan vinnudag.

Það er ekkert réttlæti í því.

Hólmvískir karlmenn styðja íslenskar konur í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi.

Konur! – Fram til sigurs!