22/11/2024

Vegleg verðlaun á afmælismóti Friðriks

Fréttatilkynning
Vegleg verðlaun eru í boði á Afmælismóti Friðriks Ólafssonar, sem fram fer í Djúpavík í Árneshreppi laugardaginn 19. júní. Meðal keppenda verða skákmeistararnir Jóhann Hjartarson, Helgi Ólafsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og heiðursgesturinn Friðrik Ólafsson, en verðlaun eru veitt í mörgum flokkum, enda mótið opið og áhugafólk á öllum aldri hvatt til taka þátt í einstakri hátíð.

Verðlaun eru sem hér segir:
1. verðlaun: 50.000
2. verðalun: 25.000
3. verðlaun: 15.000

Kvennaverðlaun: 20.000
Efstur stigalausra: 20.000
Efstur skákmanna með allt að 2200 stig: 20.000
Efsta ungmenni fætt 1992 eða síðar: 20.000
Efstur Strandamanna: 20.000

Þá mun dómnefnd að vanda velja best klædda keppandann í Djúpavík, háttvísasti keppandinn fær ljúffeng verðlaun og fleiri eiga von á glaðningi. Fjölmörg önnur verðlaun eru veitt, meðal annars útsýnissigling fyrir tvo á Hornstrandir, gisting í Árneshreppi, bækur, hannyrðir og fleira.

Skákhátíðin í Árneshreppi hefst föstudagskvöldið 18. júní klukkan 20 með tvískákmóti í Djúpavík. Þetta er mjög skemmtilegt keppnisform þar sem tveir eru saman í liði, og handagangur í öskjunni. Á laugardaginn klukkan 13 hefst Afmælismót Friðriks Ólafssonar í Djúpavík, sem lýkur með verðlaunafhendingu síðdegis. Teflt er í gömlu síldarverksmiðjunni og er stemmningin ævintýraleg á skákstað. Hátíðinni lýkur á sunnudag með hraðskákmóti í Kaffi Norðurfirði frá kl. 13-15.

Keppendur eru hvattir til að skrá sig sem fyrst hjá Róbert (chesslion@hotmail.com) eða Hrafni (hrafnjokuls@hotmail.com). Allar upplýsingar um Skákhátíðina í Árneshreppi á skakhatid.blog.is og Facebook-síðunni Skákhátíð í Árneshreppi.