22/11/2024

Af skessum, bófum og draugum

Broddanes séð ofan af EnnishálsiFréttaritari strandir.saudfjarsetur.is fór rólega yfir í blíðviðrinu á Ströndum á leið sinni suður á Vetrarhátíð í Reykjavík síðasta föstudag. Skyggnið var mikið og fagurt og veturinn skartaði sínu fegursta þó ekki hafi verið mikill snjór, en mikill hátíðarblær var yfir byggðinni á þessum góðviðrisdegi, þar sem birtan lék sér með frostinu og bláum firðinum. Það er ekki alltaf sem heimamenn gefa sér tíma til að skoða sitt nánasta umhverfi, en hér fylgja nokkrar vel valdar myndir ofan af Ennishálsi og úr Bitrufirði ásamt sögum og sögnum fyrri tíðar sem koma gjarnan upp í hugann á ferðalögum.

.

Broddanes í Kollafirði á fögrum vetrardegi. Séð ofan af Ennishálsi. Broddanes hefur alltaf verið talin mikil hlunnindajörð, sagt var í fornum bókum að jörðinni fylgdu öll hugsanleg hlunnindi önnur en laxveiði.

.

Bæjarfell ofan við Drangsnes hefur vökul augu með þorpinu. Forðum bjó þar heilmikill tröllkarl sem lét kirkjuklukkurnar í munkaklaustrinu á Þingeyrum í Húnaþingi fara svo mikið í taugarnar á sér að hann afréð að þagga niður í þeim. Það hefði hann ekki átt að reyna því hann dagaði uppi þar rétt hjá og er núna eitt helsta náttúruundur og stolt Húnvetninga, kletturinn Hvítserkur. Það hlýtur einungis að vera dagaspursmál hvenær Strandamenn heimta karlinn heim, því hann er sannarlega ein af gersemum Stranda. Kannski væri ráð að fara þangað með allan bátaflotann af Drangsnesi með þykk reipi og kaðla og draga karlskömmina heim aftur. Þá verður fátt eftir eftirminnilegt handan flóans nema Strandafjöllin.

.

Skriðinsenni í Bitrufirði. Þar sagði af vinnumanni sem lagði ást á stúlku en hún vildi ekkert með hann hafa.  Þá varð vinnumaðurinn hinn fúlasti og vildi leita hefnda í sárindum sínum og kallaði því á aðstoð galdramanns af Snæfellsnesi. Sá hét Galdra-Hallur og hann vakti upp nýdrukknaðan sjómann í verbúðinni í Dritvík og sendi á Skriðinsenni. Þegar draugurinn kom þangað breytti hann sér í flugu og settist á grautarskeið stúlkunnar. Stúlkan varð einskis vör og gleypti grautinn úr skeiðinni ásamt flugunni og þegar flugan var komin í upp í hana þá breytti draugurinn sér aftur í mannsmynd og sprengdi höfuð stúlkunnar í tætlur. Draugurinn sneri svo aftur á Snæfellsnes og drap Galdra-Hall og vinnumanninn áður en hann sneri aftur á Strandir, þar sem hann sést enn stöku sinnum á Ennishálsi. Strandamenn þekkja hann af nafninu Ennis-Móri. 

.

Bræðrabrekka í Bitrufirði. Nafngift bæjarins kemur af bræðrum sem bjuggu í Bitrufirði endur fyrir löngu og börðust þar í brekku þar til þeir gengu af hvorum öðrum dauðum. Þeir voru báðir dysjaðir í brekkunni. Ekki fylgir sögunni hverju þeir börðust út af. En vonandi hefur það verið þess virði, þó það sé hæpið.

.

Einfætingsgil í Bitrufirði er afar sérstætt heiti á bæ. Það er vel hægt að sjá fyrir sér ljóslifandi í ímyndunaraflinu einfætta fóthöggna skessu hoppa galandi og gólandi yfir gilið og æfareiðan íslenskan bónda horfa á eftir henni með blóðuga öxina eftir að hafa varið sauði sína af alefli.

.

Óspakseyri er í seinni tíð kunnast fyrir verslun og sláturhús. En staðurinn heitir eftir Óspaki nokkrum sem var mikill ójafnaðarmaður og illmenni og fór um héruð og rændi og drap með bófaflokk sínum. Hann var að lokum drepinn ásamt öllu sínu hyski í miklum bardaga á Óspakseyri þar sem hann hafði byggt sér mikið virki til að verjast í, en mátti ekki við mannamuninum sem kom víða að til að gera út af við óþokkann.

.

Það er friðsamt um að litast um á Þambárvöllum. Bærinn heitir eftir Þambá sem heitir eftir tröllskessunni Þömb. Hún steypti sér í foss í ánni þegar aldurinn færist yfir hana ásamt öllu gullinu sínu, því hún nennti ekki að lifa lengur. Það segir manni að gæfa og gull eigi ekki endilega samleið.

.

En þrátt fyrir hverskyns frásagnir úr Bitrufirði um dráp, tröll, drauga og ómenni fyrrum, þá liggur blátær friður yfir öllu á svona björtum febrúardegi. Þarna sér yfir á Vatnsnesið í Húnaþingi úr fjörunni við Hvítarhlíð.

.

Við Tröllakirkju á Holtavörðuheiði eru mörk Strandasýslu. Sagan segir að þar hafi verið þingstaður trölla. Einhverju sinni gullu kirkjuklukkurnar á Stað í Hrútafirði svo hátt og trufluðu þinghaldið að tröllin ærðust og grýttu stóru bjargi yfir heiðina til að brjóta niður kirkjuna. Þær hittu ekki vel, en steinninn mun standa þar enn og var notaður sem hestasteinn. Enda þarf líklega tröll til að fjarlægja svona björg. Eða stórvirk vegagerðartæki.

Ljósmyndir: Sigurður Atlason