Á Ströndum gerast kynleg ævintýri og margvíslegar furður með reglulegu millibili og hafa menn fyrir satt að hvergi á landinu séu hvítir hrafnar jafn algengir og ýmsar aðrar einkennilegar uppákomur. Við Steingrímsfjörð hefur verið öflug malarvinnsla í landi Heiðarbæjar og á dögunum birtist sérkennileg andlitsmynd í einum malarhaugnum, vegfarendum til skemmtunar. Telja menn víst að hér sé kominn Steingrímur trölli, en sá er ýmist talinn landnámsmaður eða jólasveinn á Ströndum. Fréttaritari hefur þó lúmskan grun um að Steingrímur hafi verið vel þekktur náttúruvættur strax á landnámsöld, því í norskri þjóðtrú eru til dæmis Fossagrímur og Fjallagrímur vel þekktar vættir sem búa í því náttúrufyrirbæri sem þær heita eftir.
Andlitið í malarhaugnum – ljósm. Jón Jónsson