Nýjasta nýtt á Ströndum er að bændurnir á Melum í Árneshreppi, Bjarnheiður Fossdal og Björn Torfason, ætla í sumar að bjóða upp á barnapössun á Melum í Trékyllisvík. Þetta er til dæmis tilvalið fyrir fólk, sem ætlar í gönguferðir á Hornströndum og í siglingu með Reimari á Sædísinni. Sumargleði á Melum er fyrir börn 5 til 12 ára og er líka kjörin fyrir börn sem vilja kynnast skemmtilegu sveitalífi. Badda er búin að vera leiðbeinandi við Finnbogastaðaskóla nær 30 ár og þau hjón ætla að bjóða upp á barnapössun frá 22. júní til 5. ágúst eða eftir samkomulagi.
Öruggt má telja að um er að ræða einstaka upplifun fyrir öll börn, en tekið er á móti þremur til fjórum börnum í einu þannig að ekki mun skorta fjörið á bænum. Ýmislegt er gert með börnunum og verður næg útivist í boði. Farið verður í gönguferðir, fjöruferðir og í sund. Börnin fá að gefa heimalningum og ærslast í heyinu. Nóg pláss er fyrir ýmsa leiki utandyra sem innan, boltaleiki og feluleiki. Svo verður ábyggilega bakað ofan í mannskapinn.
Þeir sem hafa áhuga eru hvattir til að hafa samband í síma 4514015 eða senda póst á netfangið bjf@ismennt.is. Einnig er hægt að nálgast upplýsingar og sjá fleiri myndir á www.melar.blog.is.