22/11/2024

Gistiheimili opnað í Broddanesskóla

Opnað hefur verið gistiheimili í Broddanesskóla en húsið var selt síðastliðinn vetur og voru kaupendur systkinin frá Broddanesi, Eysteinn, Guðbrandur og Ingunn Einarsbörn en þau eru öll fædd og uppalin á Broddanesi. Búið er að lagfæra og innrétta íbúð á efri hæð skólahússins þar sem boðið er upp á gistingu í uppbúnum rúmum eða svefnpokaplássi ásamt eldunaraðstöðu. Það eru 5 herbergi í íbúðinni, eldhús, borð- og setustofu auk tveggja salerna með sturtu.

Eftir er að gera við húsið að utan en það hefur látið mjög á sjá síðan kennslu var hætt þar vorið 2004. Viðgerðir fara fram í sumar og haust ásamt lagfæringu á lóð. Neðri hæð hússins þarfnast einnig endurnýjunar og er stefnt að því að gera það næsta vetur og verður þá hægt að nýta það pláss til aukinnar þjónustu við ferðamenn, t.d. vegna ættarmóta.

Broddanes hefur upp á mikla náttúrufegurð að bjóða, þar eru nes og vogar, hólmar og sker þar sem fuglar verpa og selir liggja. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja og útsýni mikið um allan Húnaflóa. Kaldbakshornið blasir við og á björtum sumarnóttum má sjá sólina koma upp úr haffletinum eða út úr Kaldbakshorninu í kringum sumarsólstöður.

Nánari upplýsingar um gistingu í Broddanesskóla má finna á heimasíðunni www.broddanes.is eða í síma 6181830.

bottom

ferdathjonusta/580-broddanes-skolabr2.jpg

Ljósm. af vefsíðunni www.broddanes.is.