Ferðamálastofa hefur auglýst eftir styrkjum til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2009. Margvísleg verkefni á Ströndum hafa fengið styrki úr þessum sjóði síðustu ár og hvetur vefurinn strandir.saudfjarsetur.is Strandamenn eindregið til að sækja um ef þeir eru að vinna við frambærileg verkefni á þessu sviði. Styrkir skiptast sem fyrr í þrjá meginflokka og sérstök áhersla verður lögð á verkefni sem stuðla að bættu aðgengi að áningastöðum. Í kynningu á styrkjunum segir að eitt helsta aðdráttarafl Íslands í hugum ferðamanna, innlendra sem erlendra, sé íslensk náttúra og að stefna íslenskra stjórnvalda sé að ferðaþjónustan í landinu starfi sem mest eftir hugmyndafræði um sjálfbæra ferðaþjónustu. Liður í því er markviss uppbygging og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar á íslenskri náttúru.
Styrkir skiptast í þrjá meginflokka:
1. Til minni verkefna:
Úthlutað verður til minni verkefna í umhverfismálum. Aðallega verða veittir styrkir til efniskaupa. Hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur.
2. Til stærri verkefna á fjölsóttum ferðamannastöðum:
Veittir verða styrkir til stærri verkefna þar sem umsækjendur stýra framkvæmdum og svæðin verða í umsjón eða eigu styrkþega eftir að framkvæmdum lýkur. Þegar til úthlutunar kemur verður stuðst við eftirfarandi vinnureglur:
a) Um er að ræða svæði eða staði sem verulegur fjöldi ferðamanna sækir heim.
b) Megin áhersla verður lögð á að styrkja svæði þar sem fullnaðarhönnun og framkvæmdaleyfi liggur fyrir, þó getur hluti af styrkupphæð farið til vinnu á deiliskipulagi.
c) Ferðamálastofa áskilur sér rétt til að fara yfir hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki.
d) Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi framkvæmdum.
e) Standi styrkþegi ekki við ákvæði (d) getur ekki orðið af frekari styrkveitingum til viðkomandi fyrr en að því ákvæði uppfylltu.
f) Engu fé verður veitt til styrkþega fyrr en að undangengnum skriflegum samningi milli Ferðamálastofu og styrkþega.
3. Til uppbyggingar á nýjum svæðum:
Veittir verða styrkir til uppbyggingar á nýjum svæðum sem skipulögð hafa verið þannig að ferðamönnum nýtist viðkomandi svæði. Þegar til úthlutunar kemur verður stuðst við eftirfarandi vinnureglur:
a) Styrkupphæð getur aldrei orðir hærri en sem nemur 75% af framkvæmdakostnaði.
b) Megin áhersla verður lögð á að styrkja svæði þar sem samþykkt deiliskipulag iggur fyrir, þó getur hluti af styrkupphæð farið til vinnu á deiliskipulagi.
c) Hluti af styrkupphæð Ferðamálastofu getur farið til verkhönnunar á viðkomandi svæði, þó aldrei meira en sem nemur 25% af styrkupphæð.
d) Ferðamálastofa áskilur sér rétt til að fara yfir hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki.
e) Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi framkvæmdum.
f) Standi styrkþegi ekki við ákvæði (e) getur ekki orðið af frekari styrkveitingum til viðkomandi fyrr en að því ákvæði uppfylltu.
g) Engu fé verður veitt til styrkþega fyrr en að undangengnum skriflegum samning milli Ferðamálastofu og styrkþega.
Hverjir geta sótt um:
Öllum sem hagsmuna eiga að gæta er frjálst að sækja um styrk að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Við úthlutun verður m.a. tekið mið af ástandi og álagi svæða, og mikilvægi aðgerðanna vegna náttúruverndar. Einnig verður tekið tillit til þess hvort viðkomandi verkefni nýtur þegar fjárstuðnings opinberra aðila. Ekki verður sérstaklega litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum.
Umsóknarfrestur:
Umsóknafrestur er til 31. janúar 2009. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar. Með öllum umsóknum skal skila inn gögnum er sýna fram á mikilvægi framkvæmdarinnar sem og skriflegt samþykki hlutaðeigandi aðila s.s. landeigenda, sveitarfélags, og umhverfisyfirvalda ef með þarf.
Hvar ber að sækja um:
Umsóknir berist með tölvupósti, sjá www.ferdamalastofa.is. Einnig er hægt að skila inn skriflegum umsóknum á eyðublöðum sem fást á skrifstofu Ferðamálastofu, Strandgötu 29, 600 Akureyri. Nánari upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi í síma 464-9990 eða með vefpósti sveinn@icetourist.is.