Tólf hafa látist í umferðarslysum á árinu, tíu karlar og tvær konur. Um er að ræða eitt bifhjólaslys þar sem ökumaður lést við útafakstur og ellefu bílslys þar sem níu ökumenn hafa látið lífið og tveir farþegar. Í fjórum tilvikum var um að ræða árekstur tveggja bifreiða, en útafakstur í hinum. Sjö banaslys urðu í dreifbýli og fimm í þéttbýli. Af þeim ellefu einstaklingum sem létu lífið í bifreiðum voru fjórir sem ekki voru í bílbeltum, en talið er að fækka mætti banaslysum í umferðinni um 20% og alvarlegum umferðarslysum verulega ef allir notuðu bílbelti. Eitt af banaslysum ársins varð á Vestfjörðum, við brúna yfir Botnsá í Mjóafirði.